Slökkviliðið fær nýjan og öflugan bíl

Nýi bíllinn mun m.a. bæta til muna öryggi slökkviliðsmanna í öllum verkefnum í Vaðlaheiðargöngum. My…
Nýi bíllinn mun m.a. bæta til muna öryggi slökkviliðsmanna í öllum verkefnum í Vaðlaheiðargöngum. Mynd/Slökkviliðið.

Slökkvilið Akureyrar fær um mánaðarmótin næstu afhentan nýjan slökkvibíl sem er sérstaklega hannaður fyrir björgunar- og slökkvistarf í jarðgöngum. Reiknað er með að hægt verði að taka slökkvibílinn í notkun snemma í febrúar. Ólafur Stefánsson, slökkviliðsstjóri á Akureyri, segir í samtali við blaðið að beðið sé eftir bílnum með mikilli eftirvæntingu.

„Um er að ræða Undanfara- og björgunarbíl sem er minni og léttari en trukkarnir okkar eða um 5 tonn í stað 16 tonna. Þó hann sé með mun minna vatn en þeir þá er slökkvimátturinn svipaður þar sem hann er búinn háþróuðu froðukerfi sem gerir það að verkum að slökkvivatnið nýtist mun betur,“ segir Ólafur. Bifreiðin er útbúin með reykköfunartæki fyrir fimm slökkviliðsmenn, loftbanka og hitamyndavélum til að geta athafnað sig í reykfylltum jarðgöngum. Einnig er hún sérútbúin fyrir björgun fólks úr bílflökum og er t.d. með útbúnað til að blása heitu lofti.

Fyrsta viðbragð í flestum útköllum

Ólafur segir að þessi bifreið verði notuð sem fyrsta viðbragð í flestum útköllum slökkviliðsins. „Helstu kostir fram yfir eldri bílana er að nýja bifreiðin er léttari og liprari. Búnaðurinn er einfaldur í notkun en mun áhrifaríkari í slökkvistarfi en þegar eingöngu er notað vatn. Það hversu stuttur bíllinn er gerir það að verkum að hægt er að snúa við hvar sem er inn í Vaðlaheiðargöngum og í raun bætir bíllinn til muna öryggi slökkviliðsmanna í öllum verkefnum þar.“

Einnig er Slökkvilið Akureyrar að fá aðal dælubílinn til baka úr viðgerð á Akranesi en þar var verið að setja í hann froðukerfi frá sama framleiðanda og er í nýja bílnum. Eftir endurbæturnar segir Ólafur að búnaður dælubílsins verði eins og best gerist í nýjum slökkvibílum í dag.


Nýjast