31. mars, 2007 - 11:19
Fréttir
Tveir menn á Þórshöfn sem kærðu hvor annan eftir slagsmál þeirra á milli, hafa báðir verið dæmdir til fangelsisvistar í Héraðsdómi Norðurlands eystra, en mennirnir fengu báðir skilorðsbundinn dóm. Mennirnir munu hafa setið að drykkju næturlangt og komið var framundir hádegi þegar annar þeirra gerði hinum heimsókn sem eiginkonunni á heimilinu féll illa. Erfiðlega gekk að koma gestinum út og það var ekki fyrr en húsráðandi, sem hafði lagt sig smástund, vaknaði og gaf aðkomumanninum á kjaftinn að hann hafðist út úr íbúðinni. Þegar þangað var komið var gesturinn reiður og kastaði m.a. grjóti í glugga við útidyr og braut glerið. Mönnunum lenti saman aftur og m.a. sveiflaði húsráðandi steikarpönnu í hita leiksins. Dómurinn dæmdi aðkomumanninn í 2 mánaða fangelsi en húsráðandann í 1 árs fangelsi og voru báðir dómarnir skilorðsbundnir til tveggja ára.