Þá verður hluti vinnslubúnaðar endurnýjaður ásamt hefðbundinni slipptöku með tilheyrandi viðhaldsverkefnum. Að sögn Antons Benjamínssonar framkvæmdastjóra Slippsins er heildarverkið upp á á þriðja hundrað milljónir króna. Gunnar Larsen framkvæmdastjóri Kælismiðjunnar Frosts segir að hér sé um mjög stórt verkefni að ræða, framkvæmdir hefjist í júní og eigi að taka um sex vikur. "Það sem að okkur snýr, er að breyta frystikerfi togarans úr freonkerfi yfir í ammoníkkerfi. Búið er að banna þau freonkerfi sem eru algengust sem kælimiðlar í skipum. Þetta er í fyrsta stóra verkefnið okkar í því að skipta úr freoni yfir í umhverfisvænni kælimiðla og sjáum við enn frekari tækifæri á því sviði."
Gunnar segir að verkefnastaða fyrirtækisins hafi verið mjög góð og útlitið framundan sé bjart. "Síðasta ár var eitt besta árið okkar og við höfum aldrei selt fleiri vinnustundir en í fyrra." Frost er með höfuðstöðvar á Akureyri og útibú fyrir sunnan. Starfsmenn fyrirtækisins eru 33, þar af 18 á Akureyri.
Anton tekur undir með Gunnari og segir að síðasta ár hjá Slippnum hafi verið mjög gott og mikið að gera. "Útlitið er fínt fyrir þetta ár, reyndar verið aðeins slaki í 2-3 síðustu vikur en á móti kemur að það var búið að vera brjálað að gera mjög lengi og því í raun ágætt að ná andanum."