Skytturnar Akureyrarmeistarar í krullu

Skytturnar urðu Akureyrarmeistarar í krullu eftir sigur á Görpunum í úrslitaleik í Skautahöllinni í gærkvöld. Átta lið úr röðum Krulludeildar Skautafélags Akureyrar tóku þátt í mótinu en þetta er í sjötta sinn sem keppt er um þennan titil. Keppt var í tveimur riðlum og fóru síðan fjögur lið í undanúrslit.  

Í úrslitaleiknum náðu Garpar yfirhöndinni í upphafi, komust í 4-0, en Skytturnar náðu að jafna 4-4. Skytturnar skoruðu síðan 4 stig og komust í 8-4 en Garpar minnkuðu muninn í lokaumferðinni, úrslitin 8-6 Skyttunum í vil. Í leik um bronsverðlaun sigruðu Víkingar Fífurnar 9-0. Í liði Skyttnanna eru þeir Jón S. Hansen fyrirliði, Sigurgeir Haraldsson, Árni Arason, Ágúst Hilmarsson og Árni Ingólfsson.

Stutt er í næsta úrslitaleik hjá krullufólki. Bikarmóti Krulludeildar lýkur miðvikudagskvöldið 28. október með úrslitaleik þar sem eigast við Garpar og Fífur. Sömu átta lið tóku þátt í því móti og var leikið með útsláttarfyrirkomulagi.

Nýjast