Skýjaborgir

Þorkell Ásgeir Jóhannsson.
Þorkell Ásgeir Jóhannsson.

Ég ætla að kynna fyrir lesandanum tvö atvik sem varða flugöryggi.

Fyrir fáeinum árum varð bilun í farþegaflugvél örskömmu eftir flugtak til norðurs á Akureyrarflugvelli. Um var að ræða viðvörun um eld sem leiddi til þess að flugmennirnir urðu að stöðva annan hreyfilinn í öryggisskyni. Síðar kom í ljós að viðvörunin var fölsk en það breytti ekki stöðunni á stað og stund, því þessi flugvél hafði nú aðeins annan hreyfilinn til að knýja sig áfram á viðkvæmasta tíma rétt eftir flugtak, meðan hæð hennar var enn mjög lág og hraðinn einnig. Auk þess var slakt skyggni og lág skýjahæð svo vélin var þá þegar er þetta gerðist, komin í blindflug. Góð þjálfun flugmanna sem og snör og góð þjónusta flugumferðastjórans stuðluðu að öruggum viðsnúningi vélarinnar og lendingu aðeins örskömmu síðar.

Hitt tilfellið er reyndar ekki eitt atvik heldur öllu fremur tímabil bilunar sem leyndist í annari flugvél hér á landi um nokkurra vikna skeið, án þess að vart yrði við. Þar var um að ræða sjálfvirkan búnað til að nauðbeita lofrskrúfu flugvélahreyfils, ef til hreyfilbilunar eða –stöðvunar kemur. Þetta er afar nauðsynlegt til að lágmarka loftmótstöðu flugvélarinnar í slíkum tilvikum. Til lánsins reyndi ekki á þennan búnað meðan á þessari vanvirkni hans stóð.

Nauðbeiting loftskrúfu verður til þess að öll skrúfublöðin snúa frambrún sinni beint upp í loftstreymið og skrúfan stöðvast. Að öðrum kosti gerist það að skrúfublöðin verða sjálf loftmótsstaða og það sem verra er, þau halda áfram að snúast fyrir tilstilli þessa loftstraums sem lendir framan á þeim. Þetta verður til þess að allur snúningsflötur loftskrúfunnar verður að loftmótstöðu. Og það er enginn smáræðisflötur eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.

Glöggt má sjá að ef allur þessi hlemmur fer að vinna sem loftmótstaða skerðir það svo mjög afkastagetu flugvélarinnar að ástandið vegna missis annars af tveimur mótorum verður hálfu verra. Þunghlaðin flugvél í þessu ástandi gæti t.a.m. misst alla klifurgetu og jafnvel átt í ströggli með að halda hæð sinni. Stefnustjórnun hennar verður auk þess afar erfið og gefur því auga leið hversu mikilvæg þessi nauðbeiting skrúfunnar á biluðum/stöðvuðum mótor er.

Hvað ef þessar flugvélar og þessi tilfelli hefðu nú verið ein og hin sömu? Langsótt? Jú vissulega en hefur þó gerst hér á landi, því eitt sinn varð Fokker-vél Flugleiða að fljúga suður frá Ísafirði eftir að mótor hennar hafði sprungið og eyðilagst í flugtaki þar, og ógerlegt var að nauðbeita skrúfunni hans. Flugið er mjög öruggur ferðamáti og það sem hér er reifað er sérlega fjarlægur tölfræðilegur möguleiki, en viðhald flugöryggis byggist samt sem áður á því að gera ráð fyrir því versta og reyna eftir megni að fyrirbyggja það.

Ef áhöfn flugvélarinnar sem sagt er frá í upphafi þessarar greinar hefði ekki getað nauðbeitt skrúfunni eftir stöðvun mótorsins, hefði brottflug hennar orðið í lítilli hæð yfir Oddeyrinni og ferill hennar þar að auki ónákvæmur vegna stóraukins álags á flugmennina sem þá hefði hellst yfir þá eins og brotsjór. En þá vildi svo vel til að leið þeirra út fjörðinn er að heita má hindrunarlaus svo ekki þarf að hafa áhyggjur af því. Enn sem komið er!

Setjum þetta nú í samhengi við háhýsin sem hugmyndir eru um að reisa á Oddeyrinni, mjög nærri brautarstefnunni. Hvernig líst lesandanum á það? Rétt er að taka það fram að reglur um hindranafleti og lágmarkshæðir í að- og brottflugsferlum nærri flugvöllum, sem áðurnefndar hugmyndir um háhýsabyggð á Oddeyri eru nú sagðar taka tillit til, gera ekki ráð fyrir mögulegri uppákomu eins og þeirri sem hér hefur nú verið reifuð. Og þó litlar líkur séu á svo alvarlegu atviki, þá er það engu að síður algerlega raunhæfur möguleiki enda eru dæmin sem ég hef nú rakið öll raunveruleg og engin afsökun getur réttlætt að gera ekki ráð fyrir þeim.

Flugsamgöngur og þau mannvirki og búnaður sem þeim fylgja eru engin afgangsstærð sem sveitar- og bæjarfélög geta umgengist af kæruleysi eða jafnvel hreinni vanvirðingu. Ég bið því alla hlutaðeigandi að gera svo vel að koma aðeins hérna niður á jörðina til okkar hinna með skýjaborgir sínar, og gera sér grein fyrir þessari staðreynd: Maður byggir ekki hindrun í formi háhýsa í einnar mílu fjarlægð frá flugvelli og það í stefnu flugbrautar hans!

-Þorkell Ásgeir Jóhannsson, höfundur er flugstjóri


Athugasemdir

Nýjast