Vel heppnaður hádegisfundur um nýbyggingu SAk

Opinn hádegisfundur um nýbyggingu SAk var vel sóttur.  Mynd  SAk.is
Opinn hádegisfundur um nýbyggingu SAk var vel sóttur. Mynd SAk.is

Í dag fór fram opinn hádegisfundur um nýbyggingu SAk. Var fundurinn vel sóttur, en um 120 manns sátu fundinn ýmist í Hofi eða á streymi.

Hildigunnur Svavarsdóttir, forstjóri SAk sagði á fundinum að ljóst væri að með nýbyggingunni væri verið að styrkja innviði, bæta aðstöðu fyrir starfsfólk og sjúklinga, tryggja betur öryggi og fagmennsku fyrir þá skjólstæðinga sem leita til SAk. Þá sagði forstjóri „Það er ekki aðeins mikilvægt að byggja hús. Heldur þurfum við að byggja hús fyrir þá þjónustu sem við viljum hafa, sem er mannleg, fagleg og aðgengileg fyrir alla þá sem þurfa á okkar þjónustu á halda. Við höfum þá framtíðarsýn að vera leiðandi í heilbrigðisþjónustu á Norðurlandi, með nýsköpun og gæði í fyrirrúmi. Við viljum skapa umhverfi sem styður bæði sjúklinga og starfsfólk, með nútímalegum lausnum, öryggi og sjálfbærni í huga.“ Þá bætti forstjóri við að mikilvægt sé að huga einnig að viðhaldi eldra húsnæðis sem áfram þurfi að nýta, byggja þurfi upp dag- og göngudeildir fáist til þess fjármagn og benti hún á að elsta byggingin sem sé í notkun og verði áfram í notkun sé um 72 ára gömul.

Á fundinum fór Gunnar Líndal, verkefnastjóri á sviði rekstrar og klínískrar stoðþjónustu yfir stöðu verkefnisins og áætlanir. Þá fjölluðu þær Sólveig Hulda Valgeirsdóttir, deildarstjóri lyflækningadeildar og Bryndís María Davíðsdóttir, deildarstjóri skurðlækningadeildar um væntanleg áhrif nýbyggingar fyrir sjúklinga og starfsfólk.

Þá fóru þær Ragnheiður Reykjalín Magnúsdóttir, deildarstjóri dag- og göngudeildar geðdeildar og Valborg Lúðvíksdóttir, aðstoðardeildarstjóri legudeildar geðdeildar yfir þær breytingar sem fyrirhugaðar eru á aðstöðu fyrir sjúklinga og starfsfólk geðþjónustu SAk.

Þá ræddi Björn Gunnarsson, sérfræðingur á gæðadeild, um sjúkraflug, en hann hefur verið læknir í sjúkraflugi um langt skeið. Hann hefur þar að auki gert rannsóknir í tengslum við sjúkraflug sem hann sagði frá á fundinum. Hann sagði að sjúkraflug sé gríðarlega mikilvægt fyrir fólk sem býr á upptökusvæði sjúkraflugs frá Akureyri. Enn fremur sagði Björn „Ef að fjárfesta á í nýrri bækistöð fyrir þyrlu, þá er langskynsamlegast að það verði á Akureyri. Það hefur mest áhrif og er flestum til góðs, myndi styrkja þetta svæði og styrkja þetta sjúkrahús gríðarlega mikið.“

Í lok fundar gafst tækifæri til spurninga og umræðna og þar var ýmislegt sem bar á góma s.s. lendingarsvæði þyrlu, aðkoma sjúkrabíla, móttaka sjúklinga, bílastæði og bílastæðakjallari, sólarsellur, rekstrarkostnaður nýbyggingar, aðkoma að Lystigarði og fjármögnun verkefnisins svo dæmi séu tekin.

Hér má sjá upptöku frá fundinum: Nýbygging SAk - fyrir okkur öll

 

Frá þessu sagði á sak.is

Nýjast