„Þetta er hugljúft jólaævintýri sem við vonum að fólki á öllum aldri falli vel í geð,“ segir Jóhanna S. Ingólfsdóttir. Hún skrifað leikverkið Jólaköttinn sem Freyvangsleikhúsið frumsýnir annað kvöld, föstudagskvöldið 21. nóvember kl. 20. Verkið verður sýnt um helgar fram til jóla, kl. 13 á laugar- og sunnudögum og síðasta sýning verður 20. desember.
Jóhanna sem er formaður Freyvangsleikhúsins er leikstjóri í sýningunni um Jólaköttinn. Eiríkur Bóasson samdi tónlist við verkið. Þau hafa áður sameinað krafta sýna í aðventusýningu hjá Freyvangsleikhúsinu en árið 2023 skrifaði Jóhanna leikritið Bangsimon og gríslingarnir sem Eiríkur samdi tónlist við. Í fyrra var sett upp sýningin Fjórtándi jólasveinninn eftir Ásgeir Lee Ólafsson, Jóhanna vann leikgerðina upp úr bókinni og Eiríkur samdi tónlist. Þá setti Freyvangsleikhúsið upp hið þekkt verk Karíus og Baktus árið 2021 og sýndi á á aðventu, þannig að hefð er orðin fyrir því að setja upp sýningar á þeim árstíma.
Aðventusýningar ganga vel
„Það hefur gengið glimrandi vel að bjóða upp á sýningar á aðventunni, með eða án jólaívafs. Við höfum fengið mikinn fjölda gesta, uppselt má segja á allar sýningar og viðtökur góðar þannig að við höldum ótrauð áfram,“ segir Jóhanna. Hún segir ekki um auðugan garð að gresja þegar kemur að stuttum jólaleikritum sem henta og því hafi sú leið verið farin að bjóða upp á frumsamið efni úr eigin ranni.
„Við erum afskaplega þakklát fyrir hversu vel hefur tekist til og greinilegt að margir vilja eiga notalega stund á þessum árstíma með börnum og barnabörnum í leikhúsi,“ segir hún og bætir við að miðaverði sé haldið í lágmarki og eigi eflaust líka sinn þátt í hversu vinsælar sýningarnar eru.
Verkið tekur um klukkustund í sýningu og er mikið fjör allan tímann á sviðinu, heilmikið af tónlist og söngvum sem halda áhorfendum við efni. „Við sýndum þetta fyrir breiðan aldurshóp, frá 2ja ára og upp í 72ja og ekki annað að sjá og heyra en allir skemmtu sér vel, óháð aldri,“ segir Jóhanna.

Jólakötturinn er frekar ófrýnilegur.
Þroskasaga Jólakattar
Í leikritinu segir af jólakettinum hinum alíslenska og alræmda en hann hittir á ferð sinni ýmsar aðrar persónur. „Jólakötturinn er orðin leiður á að vera heima þegar jólasveinar eru komnir í góða gírinn, önnum kafnir við að gera góðverk á aðventunni og eru yfirmáta kurteisir. Hann fær nóg af því að allir eru góðir og gleðir og finnst jólin frábær,“ segir Jóhanna um söguþráðinn.
Jólakötturinn ákveður að halda sína leið og heldur af stað út í heim fúll og önugur og hittir á ferð sinni fyrir ýmsar furðuverur. Fyrst rekst hann á hreindýr jólasveinsins frá Norðurpólnum sem hafði hrapað niður af himnum og er að reyna að koma sér upp aftur. Til þess þarf hann að komast upp á hátt fjall og slæst jólakötturinn í för með honum. Þeir hitta m.a. mús, tröllastelpu og veiðimann á ferð sinni upp á fjallið og úr verður mikil ævintýraför.. Á milli kattarins og hreindýrsins myndast fallegt vináttusamband og á endanum má segja að kötturinn þroskast mikið. „Hann kemst m.a. að því að það að vera frábrugðin öðrum og finnast maður ekki passa inn getur verið flókið, en með vináttu, væntumþykju og smá kurteisi er möguleiki á að allir finni sinn stað í tilverunni.“

Hallur Örn Guðjónsson leikur Jólaköttinn og Birgitta Brynjarsdóttir hreindýrið. Hér eru þau í hlutverkum sínum.