Sveitarstjórn Skútustaðahrepps sendi frá sér ályktun 9. mars s.l. um vetrarþjónustu á leiðum að vinsælum ferðamannastöðum í Mývatnssveit. Þar var skorað á samgönguyfirvöld og þingmenn Norðausturkjördæmis að beita sér fyrir auknum fjárveitingum til vetrarþjónustu á umræddum leiðum.
Á fundi sveitarstjórnarinnar 31. mars s.l. voru svo til umræðu öryggismál á ferðarmannastöðum þar efra og samþykkt var eftirfarandi bókun þar um:
„Sveitarstjórn Skútustaðahrepps beinir því til Stjórnstöðvar ferðamála að áhersla verði lögð á þjónustu á ferðamannastöðum með tilliti til öryggismála allt árið um kring. Þar er sérstaklega átt við fjármögnun til landvörslu á ferðamannastöðum, auk reksturs upplýsingamiðstöðvar allt árið. Fjöldi ferðamanna sem sækir svæðin heim á náttúrufarslega viðkvæmum jaðartímum sem og við framandi aðstæður að vetri, fer mjög vaxandi.
Öflug landvarsla og rekstur upplýsingamiðstöðvar allt árið um kring skiptir í því samhengi sköpum með tilliti til öryggis- og náttúruverndar.“ JS