Skutu tófu í Vaðlaheiði með 23 þúfutitlingsunga í kjaftinum
Hilmar sagðist aldrei hafa séð annað eins og fannst það með ólíkindum að læðan skyldi hafa getið verið með allan þennan fjölda unga í kjaftinum í einu. Hann sagðist áður hafa séð tófu með mest 14-16 unga í kjaftinum. Einnig felldu þeir félagar ref, sem var með 7 þúfutitlingsunga, einn fullorðinn þúfutitling og eina hagamús í kjaftinum en hann missti ungana niður við skotið, ólíkt því sem læðan gerði.
Hilmar sendi Ólafi Níelsen fuglafræðingi veiðina sem refirnir voru með í kjaftinum, í tveimur pokum. Í svari Ólafs kemur fram að annar pokinn innihélt 23 fugla, sem allt voru hálfstálpaðir þúfutittlingsungar og nettó þyngd var 415 grömm. Hinn pokinn innihélt 7 hálfstálpaða þúfutittlingsunga, einn fullorðinn þúfutittling og eina fullvaxna hagamús og var nettó þyngt 167 grömm. Hilmar telur að refurinn hafi verið við veiðar ca. hálfa nóttina en hann kom í skotfæri kl. hálf þrjú. Læðan kom klukkan hálf sjö um morguninn og gæti hafa verið að alla nóttina. Hann telur miðað við hvaðan tófurnar komu, að það séu a.m.k. 1,5 til 3 km að veiðisvæði þeirra.
Hilmar segir að mun meira sé af tófu á því svæði sem þeir fara um en áður en alls hafa þeir veitt 37 dýr, bæði fullorðin og yrðlinga, úr sex grenjum. "Þetta er meira en við höfum fengið á sumri, þau 26 ár sem ég hef verið með Aðalsteini í þessu. Við eigum þó enn eftir að leita fram á dölunum, syðst í Fnjóskadal, og komust ekki í það fyrr en vatnið í ánni minnkar. Við reiknum með að fá eitt greni í viðbót, þótt ekkert sé öruggt í þeim efnum," segir Hilmar.