Skrifstofustjóri hættir vegna ráðningar Eiríks

Svalbarðsströnd
Svalbarðsströnd

Skrifstofustjóri hjá Svalbarðsstrandarhreppi mætti ekki til vinnu eftir sumarfrí en samkvæmt upplýsingum Vikudags treystir hann sér ekki til að vinna með Eiríki Hauki Haukssyni, nýráðnum sveitarstjóra Svalbarðsstrandarhrepps. Staða skrifstofustjóra hefur verið auglýst á heimasíðu sveitarfélagsins en sá sem gegnir þeirri stöðu í dag, Magnús Gunnarsson, hyggst ekki vinna út uppsagnarfrestinn.

Magnús vildi ekki tjá sig um málið þegar eftir því var leitað.

Eiríkur Haukur Hauksson hóf störf sem sveitarstjóri Svalbarðsstrandarhrepps á dögunum en ráðning hans er mjög umdeild. Alls hafa 83 íbúar sent sveitarstjórn bréf þar sem þess var óskað að staða sveitarstjóra yrði auglýst en það var ekki gert. Eiríkur er sjálfur einn fimm kjörinna sveitarstjórnarfulltrúa en vék af fundi þegar sveitarstjórn samþykkti ráðningu hans sem sveitarstjóra.

Samkvæmt heimildum Vikudags hefur nú þegar einn fulltrúi sem sinnir trúnaðarstörfum, Jakob Björnsson, hætt störfum vegna óánægju með ráðningu Eiríks og fleiri hyggjast segja upp í kjölfarið.

throstur@vikudagur.is

Nýjast