Skrifað undir viðbótarsamning um uppbyggingu á KA-svæðinu

Við undirritun í dag
Við undirritun í dag

Í hádeginu í dag var skrifað undir viðbótarsamning milli Akureyrarbæjar  og KA  vegna uppbyggingar á KA svæðinu.  Haustið 2019 kom út skýrsla vinnuhóps á vegum bæjarstjórnar Akureyrar um forgangsröðun við uppbyggingu íþróttamannvirkja. Í skýrslunni kemur fram að brýnast þyki að reisa hús á félagssvæði Nökkva. Það hefur nú verið tekið í notkun. Frágangur á félagsaðstöðu í Skautahöll Akureyrar var næst í forgangsröðinni en þær framkvæmdir eru vel á veg komnar.  

Uppbygging á nýjum gervigrasvelli og stúku á KA svæðinu var númer þrjú á listanum en samningur um þá uppbyggingu var undirritaður í desember 2021 eins og komið hefur fram. Með undirritun samningsins í dag var tekinn til viðbótar sú framkvæmd sem raðaðist í fjórða sæti í forgangs-skýrslunni frá 2019, það er félagsaðstaða, búningsklefar og æfingaaðstaða á KA-svæðinu.

Eiríkur S. Jóhannsson formaður KA var að vonum glaðbeittur  þegar Vikublaðið ræddi við hann um undirritun samningsins.

„Það var búið að skrifa undir samning um byggingu á stúku og nýjum velli en viðbótin núna felst í því að reisa tengibyggingu sem að mun innihalda viðeigandi búningsklefa fyrir nýja mannvirkið og núverandi byggingu, auk fullkomins júdósals og félagsaðstöðu,“ sagði Eiríkur og bætir við að samningurinn frá 2021 falli í raun inn í þennan nýja samning.

„Ég er mjög stoltur fyrir hönd félagsins en ekki síður fyrir hönd bæjarins að við séum  komin á þennan stað. Mig langar til að þakka bæjarstjóra og bæjarstjórn og þá sérstaklega þeim fulltrúum sem greiddu þessari uppbyggingu atkvæði,“ segir Eiríkur að lokum.

Nánar verður rætt við Eirík í Vikublaðinu sem kemur út nk fimmtudag.

 


Athugasemdir

Nýjast