Skriðjöklar í sparifötunum á tónleikum á Græna hattinum

Hljómsveitin Skriðjöklar birtist í sínum gamla heimabæ um helgina og leikur á tónleikum á Græna hattinum á laugardagskvöld, en ár og dagar eru síðan Jöklarnir hafa troðið upp á Akureyri. Sveitin ætlar að renna yfir feril sinn í tali og tónum en hann er víst orðinn nokkuð langur og ærið skrautlegur.  

Blaðamaður sló á þráðinn til söngvarans, Ragnars Gunnarssonar, eða Ragga Sót. „Já, þetta er orðinn alllangur ferill eins og sjá má á því að ég hélt nýlega upp á 27 ára söngafmæli mitt vegna fjölda áskorana," segir Raggi. „Þetta var nú á haustmánuðum á skemmtistaðnum Spot í Kópavogi og aðsóknin var slík að röðin náði hálfa leið til Hafnarfjarðar."

Ragnar var spurður hvort einhver sérstök ástæða væri fyrir tónleikunum um helgina. „Ja... við félagarnir höldum þorrablót á bóndadeginum ár hvert og nú var komið að því að halda það á Akureyri. Það verður í Bakkahöllinni hjá Bjarna Bjarnasyni múrarameistara sem er einmitt dansari og bakraddasöngvari í bandinu ásamt Loga Einarssyni varaþingmanni. Í blótinu verður snæddur þorramatur og drukkið sótavatn en það er sjöfaldur brennivín í meðalstóru vatnsglasi og fyllt upp með vatni ef það kemst.

Okkur þótti upplagt að nýta ferðina og slá upp tónleikum kvöldið eftir en það höfum við ekki gert lengi. Við höfum leikið á einum og einum dansleik í áranna rás en vorum mikið í tónleikahaldi áður fyrr og höfðum gríðarlega gaman af. Þá sögðum við gjarnan sögur af öllu tagi og lékum eingöngu eigið efni og efni annarra sem við höfum eignað okkur í gegnum tíðina. Þetta ætlum við að gera á laugardagskvöldið. Við ætlum að segja frá því hvernig hljómsveitin varð til og hvað hún hefur baukað í gegnum árin, segja sögur af eftirminnilegum samferðarmönnum og konum og svo leikum við fullt af lögum sem heyrast ekki á hverjum degi. Ég get lofað frábærri skemmtun."

Dansaranir í frábæru formi

Ragnar var spurður hvort lesendur fengju ekki forskot á sæluna. „Jú. Einu sinni sem oftar náði til dæmis einn af undirleikurum mínum sér í kellingu og hún reyndist vera gormælt í meira lagi. Það var ákaflega eftirminnilegt þegar ég vaknaði um miðja nótt og heyrði öskrað hástöfum: „Hrrrraðarrr! Hrrraðarrr! Dýprrra! Dýprrra!" Annars verða sögurnar ekki allar af þessu taginu. Við verðum ákaflega dannaðir og prúðir og meira að segja í sparifötunum. Þá höfum við æft geysilega vel og dansararnir eru t.d. í frábæru formi um þessar mundir. Stefnan er svo sett á að fara víðar með þetta prógramm í framhaldinu," sagði Raggi Sót að lokum.

Nýjast