Skortur á starfsmenntuðu fólki á Eyjafjarðarsvæðinu

Í framtíðarsýn Háskólans á Akureyri er áætlað að hefja tækninámið árið 2023.
Í framtíðarsýn Háskólans á Akureyri er áætlað að hefja tækninámið árið 2023.

Skýrsla RHA um menntunarþörf á meðal fyrirtækja og stofnana á starfssvæði Eyþings var kynnt á málþingi í Háskólanum á Akureyri nýverið. Helstu niðurstöður könnunarinnar er að töluverður skortur er á starfsmenntuðu fólki á svæðinu, sem er Eyjafjörður og Þingeyjarsýsla. Rétt rúmlega helmingur svarenda fyrirtækja og stofnana sagði að vel hafi gengið að fá fólk til starfa með þá menntun eða hæfni sem þörf er á en 27% sögðu að það hefði gengið frekar eða mjög illa.

Fyrirtækjum í iðnaði hefur gengið verst að fá starfsfólk með tilskylda menntun en aðeins 20% sögðu að það hefði gengið frekar eða mjög vel. Tæp 50% sögðu að það hafi gengið frekar eða mjög illa. Aðeins 37% fyrirtækja í mannvirkjagerð, 41% fyrirtækja í sérfræðilegri starfsemi og 45% fyrirtækja í fjármála- og vátryggingastarfsemi sögðu að vel hafi gengið að ráða til sín fólk. Þegar spurt var hvers konar menntað starfsfólk vantaði eða myndi vanta á næstu árum og hversu marga, svöruðu flest fyrirtæki eða 96 að þau myndi vanta iðnmenntað starfsfólk, rétt þar á eftir kom háskólamenntað fólk en því svöruðu 93 þátttakendur.

Í um helmingi tilfella hjá bæði háskóla- og iðnmenntuðu fólki var um eitt til tvö störf að ræða. Þær starfsgreinar sem oftast voru nefndar í spurningakönnuninni þegar spurt var hvers konar háskólamenntun myndi vanta voru tækni-/ upplýsingamenntun, verkfræði; kennaramenntun og hjúkrunarfræði.

Móta þarf heildarstefnu

Eyjólfur Guðmundsson, rektor við Háskólann á Akureyri, segir að móta þurfi heildarstefnu um með hvað hætti eigi að mæta menntunarþörf á svæðinu. Hann segir ennfremur að niðurstöður könnunnar RHA hafi ekki komið sér á óvart. „Við erum að reyna að þjónusta best þau fög sem nefnd eru í skýrslunni. Það sem upp á vantar er tvennt sem tengist með beinum hætti; annars vegar fjórða iðnbyltingin og hvernig við tökumst á við hana, og hins vegar meiri vöntun á fólki með tæknilegan bakgrunn,“ segir Eyjólfur. Viðmælendum skýrslu RHA fannst vanta háskólanám fyrir þá sem hafa lokið iðnnámi, t.d. eins konar tæknifræði. Í framtíðarsýn Háskólans á Akureyri er áætlað að hefja tækninámið árið 2023. „Með því myndum við mæta þessu ákalli en það er stórt pólitískt verkefni að taka slíka ákvörðun. En ein af þeim ástæðum að það er skortur á starfsmenntuðu fólki er að það vantar framhaldsnám í slíkri menntun. Okkar áhersla myndi vera miðuð af þörfum samfélaga utan höfuðborgarsvæðisins og við erum langt kominn með þá hönnun.“ Eyjólfur stöðu verkefnsins þá að á næstunni muni skólinn hefja formlegri samtöl við stjórnvöld um heildarsýn.

Staðsetning á námstíma getur skipt sköpum

Eyjólfur segir skýrslu RHA staðfesta að á þeim sviðum sem Háskólinn á Akureyri bjóði upp á menntun, t.a.m. kennaramenntun og hjúkrunarfræði, sé staðan mjög góð. „Á Eyjafjarðarsvæðinu sjálfu er hlutfall réttindakennara mjög hátt, sem sýnir okkur að þegar menntunin kemur nær samfélaginu þá er fólk líklegra til þess að búa áfram á svæðinu. Staðsetning fólks á meðan námi stendur yfir skiptir miklu máli um framtíðarbúsetu. Þetta hafa rannsóknir og ritrýndar niðurstöður sýnt framá. Það sem við þurfum að hugsa um er að hópurinn af nemendum sem sækir háskólann í dag sé fjölbreyttur, tryggja að það séu tækifæri víða um land og fólk hafi tækifæri til þess að snúa til baka eftir nám. Einnig að fólk sem hefur ekki farið í háskólanám á sínum yngri árum fái tækifæri til að mennta sig í þeim fræðum í háskólanum í nærsamfélaginu.“

 


Nýjast