Skólahald lagt niður í Grímsey

Nemendur á leik fyrir utan Grímseyjarskóla.
Nemendur á leik fyrir utan Grímseyjarskóla.

Fræðsluráð Akureyrarbæjar hefur samþykkt að fella niður skólahald í Grímseyjarskóla tímabundið veturinn 2019-2020 meðan ekki eru fleiri nemendur skráðir í skólann, en gera jafnframt ráð fyrir að sú ákvörðun verði endurskoðuð fyrri hluta árs 2020 fyrir skólaárið 2020-2021. Skólaganga þess nemanda sem skráður er í skólann myndi þá falla undir samþykktar reglur um skólagöngu nemenda í 9. og 10. bekk í Grímsey.

Þrír nemendur hafa stundað nám við grunnskólann í vetur og tvö börn á leikskóla. Karen Nótt Halldórsdóttir, skólastjóri í Grímseyjarskóla, segir í samtali við Vikudag að ein fjölskylda sé að flytja frá eynni og eins og staðan er í dag verði engir nemendur næsta vetur.

„En vonandi verður þetta ekki til frambúðar. Húsnæðið er til staðar og öll námsgögn til að taka upp þráðinn. Við Grímseyingar vonum það besta og að skólaganga muni hefjast að nýju,“ segir Karen.


Nýjast