16. febrúar, 2016 - 08:19
Fréttir
Mynd úr safni.
Ekkert ferðaveður er á skólasvæði Þelamerkurskóla nú í morgunsárið og spár benda til þess að þannig verði það alla vega fram að hádegi. Af þeim sökum verður ekkert skólahald í Þelamerkurskóla í dag, segir á heimasíðu skólans. Einnig fellur niður skólahald í Hlíðarskóla við Akureyri.
Þá greinir
Rúv frá því að flutningabíll með 40 feta gám á tengivagni hafi fokið út af þjóðvegi 1 við Hlíðabæ rétt norðan bæjarmarka Akureyrar á fimmta tímanum í nótt. Bíllinn valt á hliðina út í vegöxlina, en mjúkt var undir. Ökumaður slasaðist ekki. Lögregla á Akureyri segir veður sæmilegt í bænum, þótt það hreyfi vind, en mun hvassara litlu utar í firðinum.
Á vef Veðurstofu Íslands er veðurspáin eftirfarandi: Suðvestan 20-30 m/s, hvassast N- og NV-til, en hægari syðst fram á kvöld. Él um landið S- og V-vert, en léttir til annars staðar. Lægir smám saman um og eftir hádegi, suðvestlæg átt 8-15 seint í dag, en allhvass vindur syðst í kvöld og fram á nótt. Kólnandi veður, frost 0 til 7 stig síðdegis. Suðlæg eða breytileg átt 5-13 m/s á morgun og áfram él S- og V-lands, en úrkomulítið fyrir austan. Vaxandi norðlæg átt NV-til síðdegis og kólnar annað kvöld.
Í athugasemd veðurfræðings segir að suðvestan og vestan rok eða ofsaveður N- og V-lands verði eftir morgni með éljum. Aðstæður til ferðalaga eru því varhugaverðar.