Skógræktarfélag Eyfirðinga Sjötíu ár frá því sala jólatrjáa hófst

Sigurður Ormur Aðalsteinsson, starfsmaður Skógræktarfélagsins að skreyta Aðventutré
Sigurður Ormur Aðalsteinsson, starfsmaður Skógræktarfélagsins að skreyta Aðventutré

Skógræktarfélag Eyfirðinga bauð lifandi jólatré til sölu í fyrsta sinn fyrir jólin árið 1953, þannig að félagið fagnar því nú í ár að 70 ár eru frá því byrjað var að selja fólki lifandi jólatré til að skreyta híbýli sín. Einnig voru fyrir jólin 1953 til sölu greinar af jólatrjám. Á þessum tíma hafði jólatrjáhefðin stigið sín fyrstu skref, hrífusköft voru skreytt með birki eða eini greinum, gjarnan smíðuð af hagleiksfólki og voru víða til en höfðu ekki enn skapað sér hefð í jólahaldi Íslendinga. 

Ingólfur  Jóhannsson framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Eyfirðinga segir að þegar félagið bauð jólatré og greinar til sölu fyrsta ári hafi í allt verið í boði 25 sígræn tré, ýmist höggvin í heimabyggð eða  útveguð af Landgræðslusjóði. Sömuleiðis hafi verið talsvert til af greinum sem klipptar voru í Vaðlareit og Grundarskógi. „Við Eyfirðingar, sem erum reyndar annálaðir fyrir skynsemi og varkárni þegar kemur að nýjum viðskiptum, létum ekki svona gylliboð glepja okkur.  Skemmst er frá að segja að um helmingur jólatrjánna eignaðist nýtt heimili en  greinar seldust upp og lögðu þannig grunninn að eyfirskri jólahefð,“ segir hann.

 Selja 1.200 tré á heimamarkaði árlega

 Nú selur Skógræktarfélagið um 1.200 íslensk jólatré á heimamarkaði og segir Ingólfur að þau sér framleidd án allra eiturefna og  kolefnissporið er í lágmarki. Hann nefnir að um þessar mundir herji afar alvarlegir trjásjúkdómar á Evrópu og selur SE ekki innflutt tré, samkvæmt banni frá Mast, en einnig eigin samvisku. „Jólatrjáabændur á okkar starfssvæði eru okkur algerlega nauðsynlegir, þeir tryggja gæði framleiðslunnar og keppa við m.a. innfluttan þin frá Danmörku og gervitré sem dæmi,“ segir hann.

Kynbótastarf í trjárækt segir hann  verðugt umfjöllunarefni hvort sem afurðin er timbur, yndi eða jólatré. Sauðfjárbændur byggi á hefð sem nær yfir hundruði ára þegar kemur að kynbótastarfi, en skógræktin á Íslandi einungis fáa áratugi.

 Starfsmenn Skógræktarfélagsins hafa verið á ferðinni undanfarið að ná í jólatré, en um þessar mundir er sala á aðventutrjám að hefjast af fullum krafti. Ingólfur segir að þar sé um að ræða hefð sem byggst hafi upp undanfarin 10 ár og tengist fullvinnslu afurðar. „Við höggvum tré, setjum þau í fót, skreytum með ljósum, færum viðskiptavini á aðventu og sækjum þegar skammdegi lýkur.  Seríur og fætur eru nýtt aftur að ári, tré kurluð og þau nýtast við stígagerð í Kjarnaskógi,“ segir hann en fyrir hvert jólatré sem fellt er plantar Skógræktarfélagið á bilinu 50 til 100 trjám.

 


Athugasemdir

Nýjast