Páll Björnsson skrifar
Í Vikudegi fyrir tveimur vikum kastaði ég fram þeirri hugmynd að gera Ráðhústorgið að skjólsælum stað með því að klára Landsbankahúsið og byggja fyrir framan íbúðaturninn. Í síðasta blaði benti Ragnar Sverrisson kaupmaður á að þessi tillaga geti vel samrýmst nýlegum hugmyndum að breyttu miðbæjarskipulagi. Ég nefndi að það skipulag virtist hafa verið lagt til hliðar, allavega tímabundið, m.a. vegna kostnaðar við gerð síkis og brúar yfir það. Vissulega má benda á að undanfarinn áratug hefur fjöldi brúa verið byggður á höfuðborgarsvæðinu þar sem landfræðilegar hindranir, t.d. vatnsföll eða fjallgarðar, eru fáar. En nú eru breyttir tímar. Vart er hægt að búast við því að ríkissjóður greiði fyrir slíka brúarsmíði áður en lokið verður við gerð Vaðlaheiðargangna og helstu gangna á Austurlandi og Vestfjörðum.
Framansagt breytir því hins vegar ekki að ein meginhugmyndin að baki miðbæjarskipulaginu, að byggja þvert á ríkjandi vindáttir, er góð. Í framhaldi af því mætti nefna að Árni Ólafsson arkitekt rakti þróun skipulagsins á Akureyri frá upphafi 20. aldar til okkar daga í einkar fróðlegu erindi sem hann hélt á vorþingi AkureyrarAkademíunnar laugardaginn 10. mars s.l. Þar vék hann m.a. að hugmyndinni að síkinu. Í því sambandi benti hann á að ekki skipti öllu hvort vatnið þar væri þriggja metra eða 30 cm djúpt. Kannski mætti taka þessa umræðu enn lengra og spyrja hvort ekki megi einmitt ná kostnaðinum niður með frekari breytingum. Jafnvel mætti hugsa sér að í stað síkis kæmi einfaldlega skjólgott torg. Að sjálfsögðu hefur þetta verið sagt áður. En eins og Ragnar bendir á, þá er mikilvægast að halda vinnunni við miðbæjarskipulagið áfram þannig að byggja megi miðbæinn upp í áföngum.
Höfundur er sagnfræðingur og dósent við HA.