Bæjarráð Akureyrar hefur samþykkt nýja gjaldskrá í Hlíðarfjall fyrir veturinn 2015-2016 og munu bæði stakir miðar og árskort hækka í verði. Þannig mun vetrarkort fyrir fullorðna sem seld eru í október fyrir opnun hækka um 1.650 krónur og kosta nú 34.650. Vetrarkortin sem keypt eru eftir þann tíma hækka um tvö þúsund krónur; fara úr 43.000 kr. í 45.000 kr. Þá hækkar verð á stökum miðum fyrir fullorðna á bilinu 150-200 krónur.
T.a.m. hækkar verð á þriggja klukkustunda lyftumiða úr 3.750 kr. í 3.950 kr. Þá kostar heill dagur 4.620 kr. eftir hækkun en var áður 4.400 kr. Verð fyrir börn á aldrinum 6-18 ára og fullorðna 67 ára og eldri hækkar minna. Mest er hækkunin á vetrarkortunum sem hækka um 500 kr.
-þev