„Skemmtilegt og spennandi" segir verslunarstjóri H&M

Örtröð var í verslun H&M í gær.
Örtröð var í verslun H&M í gær. "Við minnum góðfúslega á að við erum komin til að vera hér á Akureyri og að áhugasamir viðskiptavinir gætu þurft að sýna örlitla þolinmæði fyrstu dagana,“ segir Edda. Ljósmynd/Þorgeir Baldursson.

Ný verslun H&M opnaði á Glerártorgi í gær og er þetta fyrsta verslunin utan höfuðborgarsvæðisins. Verslunin spannar 2000 fermetra rými. Verslunarstjórinn er Edda Bjarnadóttir og segir hún opnun verslunarrisans hér í bænum vera stóra stund. „Já ég held að það sé óhætt að segja það og við vonum að viðskiptavinir upplifi að með þessu komi eitthvað nýtt til Akureyrar. Við erum að bjóða uppá tísku og gæði á frábæru verði á sjálfbæran hátt og ég trúi því að þetta sé eitthvað sem heimamenn muni meta. H&M snýst líka um að skemmta sér með tísku og líða vel og þessi jákvæði viðburður er vonandi góður fyrir íbúa Norðurlands,“ segir Edda. „Við erum með verulegan fjölda af vörum, mikið úrval af mismunandi deildum og við munum örugglega bæta við vöruvalið og bjóða uppá fjölbreytt verð og tilboð þegar líður inn í haustið og veturinn.“

70 manns inni í einu

En er ekki krefjandi að opna stóra verslun í miðjum heimsfaraldri? „Við höfum vissulega þurft að aðlaga okkur að breyttum aðstæðum en þrátt fyrir það hafa hlutirnir gengið samkvæmt áætlun. Við verðum með borða með merkingu um fjarlægð. Viðburðarskrifstofa Norðurlands mun tryggja línuna úti við opnunina og vegna aðstæðna munum við fylgja tillögum yfirvalda og telja inn í verslunina og leyfa hámarki 70 manns inn í einu. Þá minnum við góðfúslega á að við erum komin til að vera hér á Akureyri og að áhugasamir viðskiptavinir gætu þurft að sýna örlitla þolinmæði fyrstu dagana,“ segir Edda.

Leiðandi á markaði

Sjálf segist Edda spennt fyrir því að þjónustu fólk á svæðinu. „Það er frábært að vera hluti af faglegu alþjóðlegu fyrirtæki eins og H&M. Fyrirtækið er búið að vera leiðandi á markaði síðan 1947 og það hefur verið einstakt að upplifa þá reynslu og skipulag sem H&M býr yfir.“ Edda hefur unnið í 12 ár sem markaðsstjóri og framkvæmdastjóri við að byggja upp alþjóðleg vörumerki í heildsölu og smásölumarkaði og við hótelstjórnun í 11 ár. „Saman hefur þessi reynsla gert mig nokkuð tilbúna fyrir þetta tækifæri. Þess vegna er ég mjög spennt fyrir því að leiða frábært og nýtt H&M teymi á Akureyri sem er minn heimabær.  Það verður skemmtilegt og spennandi verkefni að opna fyrsta H&M utan Reykjavíkur,“ segir Edda Bjarnadóttir.  

 


Athugasemdir

Nýjast