10. ágúst, 2007 - 15:45
Fréttir
Stjórn Hamra - Útilífs- og umhverfismiðstöðvar skáta á Akureyri hefur sent frá sér eftirfarandi yfirlýsingu vegna umræðunnar um nýliðna verslunarmannahelgi á Akureyri. Skátar á Akureyri hafa um langt árabil rekið tjaldsvæðin á Akureyri með sérstökum samningi þar að lútandi við Akureyrarbæ með það að markmiði m.a. að samþætta við rekstur á útilífs- og umhverfismiðstöð skáta að Hömrum. Höfum við átt mjög gott samstarf við Akureyrarbæ sem sér stað í uppbyggingunni að Hömrum og eigum við okkur markmið um enn frekari uppbyggingu þar, m.a. með nýju skátaheimili á svæðinu. Um nokkurra ára bil hafa skátar án athugasemda sett aldursviðmið fyrir gistingu á tjaldsvæðunum bæjarins um verslunarmannahelgar enda útfrá því gengið að um fjölskyldutjaldsvæði sé að ræða. Hins vegar var ný staða uppi þegar Akureyrarbær tók ákvörðun um að ekki skyldi boðið upp á sérstök „unglingatjaldsvæði" í tengslum við fjölskylduhátíðina „ein með öllu". Við þær aðstæður var ljóst að mikilvægt væri að við skátar hefðum fullan stuðning við að framfylgja áðurnefndri viðmiðun okkar, sem hefur verið notuð mörg undanfarin ár eins og áður segir. Var því leitað eftir stuðningi bæjaryfirvalda um það og hann fengum við óskoraðan, að því er við töldum. Frá okkar bæjardyrum séð var alveg ljóst að við ættum þess engan kost að taka á móti þeim hópi sem hingað til hefur gist á svonefndum „unglingatjaldsvæðum" og tryggja um leið öryggi, aðbúnað og næði annarra tjaldgesta sem eru að langstærstum hluta fjölskyldufólk, eins og vel mátti sjá um liðna verslunarmannahelgi.
Rekstur okkar á tjaldsvæðunum er, eðli málsins samkvæmt, miðaður við ákveðnar forsendur og auðvitað verður hann að standa undir sér eins og annar rekstur. Inni í þessum forsendum er ekki gert ráð fyrir þeim mikla kostaði sem yrði samfara því að reka sérstakt „unglingatjaldsvæði" samhliða og á sama svæði og þau fjölskyldutjaldsvæði sem við erum að reka. Allir sem vilja sjá það vita að ekki er hægt að mæta þörfum þessara tveggja hópa á sama tjaldsvæðinu, þær eru einfaldlega allt of ólíkar til þess að það gangi upp, reynslan bæði hér á Akureyri sem og annars staðar sýnir okkur það. Eftir stendur síðan spurningin um það hvers konar hátíð viljum við halda? Til hvaða markhóps viljum við höfða? Það er ljóst að vilji menn halda „útihátíð" þar sem gert er ráð fyrir dagskrá langt fram á nætur fyrir fjölmenna hópa ungs fólks, þá höfum við ekki bolmagn til þess að taka á móti þeim og sinna þeirra þörfum. Vilji menn halda fjölskylduhátíð þar sem markhópurinn er fjölskyldufólk þá er ljóst að það fer saman við þau markmið sem skátar hafa sett sér við rekstur tjaldsvæðanna á Akureyri. Við spyrjum því hvort ekki sé eðlilegast að þeir rekstraraðilar hér í bæ sem vilja halda „útihátíð" með áður nefndum formerkjum verði þá ekki einnig að taka ábyrgðina á því að sinna gistiþörfum þessa hóps?