Skarpur kemur áfram út

Ákveðið hefur verið að opna Prentstofuna Örk á Húsavík, en í því felst að héraðsfréttablaðið Skarpur og augýsingblaðið Skráin, sem voru einu fjölmiðlarnir í bænum, munu koma út áfram. Ritsjtóri Skarps er Jóhannes Sigurjónsson, en hann hefur gefið út og ritstýrt héraðsfréttablaði á Húsavík frá 1979 eða í 30 ár, fyrst Víkurblaðinu, blaði alls mannkyns og síðan Skarpi. Fyrr í vikunni bárust fréttir af andláti Skarps þar sem Prentstofan Örk væri komin í þrot. Þær andlátsfréttir hafa nú reynst nokkuð orðum auknar

.
Sjá má yfirlýsingu frá forsvarsmönnum Prentstofunnar Arkar hér að neðan:

Prentstofan Örk ehf. á Húsavík opnuð á ný
Skráin og Skarpur koma út í næstu viku

Í kjölfar frétta af lokun Prentstofunnar Arkar á Húsavík og endalokum útgáfu á auglýsingablaðinu Skránni og héraðsfréttablaðinu Skarpi urðum við varir við gríðarlega mikil viðbrögð íbúa og fyrirtækja á svæðinu sem og fólks víðar.
Í framhaldi af því fór af stað ný vinna við að endurreisa reksturinn og finna flöt á starfseminni. Við ætlum okkur næstu vikur í að tryggja að þeirri starfsemi sem haldið hefur verið úti á vegum fyrirtækisins verði haldið áfram þ.e.a.s. útgáfu blaðanna beggja og prentsmiðjurekstrinum.
Auglýsingablaðið Skráin kemur þvi næst út fimmtudaginn 22. október 2009 og síðan vikulega á fimmtudögum - Skilafrestur auglýsinga í Skrá hverrar viku er kl. 12:00 þriðjudaginn fyrir útgáfudag. Skarpur – héraðsfréttablað kemur út á föstudag í næstu viku þann 23. október 2009. - Áskriftarsími Skarps er 464 2000 og einnig er hægt að gerast áskrifandi á netinu á vefslóðinni www.skarpur.is
Það er von okkar sem stöndum í þessum björgunaraðgerðum að við komum til með að finna áfram þann stuðning í verki sem hugur hefur sýnt undanfarna daga.
Kveðja frá Húsavík Prentstofan Örk ehf.
Sigurgeir Aðalgeirsson og Víðir Pétursson

Nýjast