Hreinn Halldórsson, alþýðulistamaður, hefur undanfarin ár skapað tréskúlptúra/styttur í frítíma sínum. Við heimili hans á Oddeyrinni er stór bakgarður og þar eiga allar stytturnar sinn stað en öll verkin bera sín nöfn og séreinkenni. Sum þeirra má rekja til íslenskra bókmennta og ævintýra en síðustu ár hefur hugur Hreins og listsköpun snúið að sígildum ævintýrum sem eru honum minnistæð frá bernskuárunum. Hreinn hefur undanfarnar vikur tekið á móti 200 leikskólabörnum á Akureyri sem hann hefur boðið í heimsókn. „Í heimsóknunum hef ég lagt áherslu á að fræða börnin um hvert og eitt verk og vakið athygli þeirra á ævintýraheiminum þar sem ég útskýri fyrir þeim hlutverk hverrar ævintýrapersónu með sögum og fróðleik af þeim,“ segir Hreinn. „Yfirleitt er börnum bannað að koma við verk á söfnum. Ég hef hins vegar hvatt þau til að koma við verkin mín með það að markmiði að þau upplifi og skynji fjölbreyttan og ólíkan efnivið sem ég nota við listsköpun mína,“ segir Hreinn.
Börnin yfir sig hrifinn
Í byrjun ársins sýndi Hreinn valin verk í sýningarrými Amtbókasafnsins og vakti sýningin mikla athygli, ekki síst á meðal barna. „Með hækkandi sól ákvað ég að senda tölvupóst til allra leikskóla Akureyrarbæjar og bjóða elstu börnunum í leikskólunum að koma í skoðunarferð/heimsókn í ævintýragarðinn. Viðbrögðin við bréfinu létu ekki á sér standa.“ Í heimsóknunum röltir Hreinn um garðinn með börnunum og segir þeim frá ævintýrunum þar sem þetta eru mikið til ævintýrastyttur. „Ég hef t.d. gefið öllum dvergunum nöfn í Mjallhvít og dvergunum sjö og sagt hvaða hlutverk hver dvergur hefur innan hópsins. Börnin eru yfir sig hrifinn af þessu,“ segi Hreinn. Hann segist reikna með að fá allavega 50 leikskólabörn til viðbótar í heimsókn. „Leikskólar í næstu sveitarfélögum hafa sýnt þessu áhuga og leikskólinn í Hörgársveit hefur t.d. ákveðið að koma.“
Stytturnar orðnar 30 talsins
Hreinn flutti til Akureyrar fyrir 12 árum og fékk þá góða aðstöðu til að vinna við stytturnar. „Þessi ástríða greip mig föstum tökum og ég hef vart stoppað síðan. Núna eru þetta orðnar 30 styttur í heildina og þetta vekur gjarnan mikla athygli fólks sem á leið um,“ segir Hreinn Halldórsson.
-þev