Skammtímavistun fatlaðra á Akureyri færðar góðar gjafir

Skammtímavistun fatlaðra á Akureyri fékk nýverið að gjöf frá Barnaspítalasjóði Hringsins tvö sjúkrarúm og eina hvíldarkerru, samtals að andvirði um 3,9 milljónir króna. Um er að ræða sérhæfðan búnað sem ætlað er að bæta aðstöðu og aðbúnað þeirra fjölfötluðu barna sem nýta sér þjónustu skammtímavistunar.  

Valgerður Einarsdóttir formaður Kvenfélagsins Hringsins og Sjöfn Hjálmarsdóttir meðstjórnandi afhentu gjöfina formlega og veitti Hermann Jón Tómasson bæjarstjóri henni viðtöku fyrir hönd bæjarins og þakkaði þann velvilja og höfðingsskap sem hún endurspeglar. Þetta var kynnt á síðasta fundi félagsmálaráðs Akureyrarbæjar. Þar kom einnig fram að skammtímavistun var fyrr á árinu afhent gjöf að upphæð 1 milljón króna frá fyrrverandi notanda skammtímavistunar og fjölskyldu hans. Gefendur vilja ekki láta nafna sinna getið en gjöfinni skal varið til að auðga starf og þjónustu skammtímavistunar.

Nýjast