Skammtímavistun fyrir fatlaða á Akureyri lokað vegna smits

Akureyri. Mynd/María H. Tryggvadóttir.
Akureyri. Mynd/María H. Tryggvadóttir.

Starfsmaður í skammtíma- og frístundaþjónustu fyrir fatlaða á Akureyri hefur greinst með Covid-19. Viðkomandi starfaði í Þórunnarstræti 99 og hefur starfsemi þar verið lögð af á meðan smitrakning fer fram. Af þessum sökum þurfa um eða yfir 30 starfsmenn og notendur þjónustunnar að fara í sóttkví og verður lokað í Þórunnarstræti 99 a.m.k. út þessa viku.

Allir sem hafa verið í beinum samskiptum við starfsmanninn þurfa að fara í sóttkví og teygir smitrakning sig einnig í þjónustukjarna í Klettaborg, Kjarnagötu og Sporatúni og mun því hafa áhrif á starfið þar en vonast er til að þau verði óveruleg.

Stjórnendur í skammtímaþjónustu Akureyrarbæjar eru í nánu samstarfi við smitrakningarteymi um framhald málsins, segir í tilkynningu frá Akureyrarbæ.


Athugasemdir

Nýjast