Sjúkrabílar farið sex ferðir um Vaðlaheiðargöng

Göngin eru þegar farin að auka öryggi íbúa segir forstjóri HSN.
Göngin eru þegar farin að auka öryggi íbúa segir forstjóri HSN.

Undanfarna daga hafa sjúkrabílar frá Húsavík farið sex ferðir í gegnum Vaðlaheiðargöng. Bæði vegna þess að Víkurskarðið er ófært en einnig vegna þess að tími flutnings hefur skipt máli. Þetta segir í svari frá Jóni Helga Björnssyni forstjóra Heilbrigðisstofnunar Norðurlands við fyrirspurn blaðsins. 

Í einu tilfelli var um flutning á konu að ræða sem var komin að því að fæða. Víst þykir að hún hefði átt barnið í bílnum hefði ekki verið hægt að stytta sér leið í gegnum göngin.

„Göngin eru því þegar farin að auka öryggi íbúa í Þingeyjarsýslum með því að stytta tíma flutninga og með auknu öryggi um færð þegar veður eru válynd,“ segir Jón Helgi.

Óþolinmóðum vegfarendum vísað frá

Valgeir Bergmann, framkvæmdastjóri Vaðlaheiðarganga, segir að mikið áreiti hafi verið um sl. helgi vegna óþolinmóða vegfarenda sem vildu fara í gegn. Segir Valgeir að verktakinn hafi snúið við fjölda bíla sem komu inn í göng þegar Víkurskarðið var lokað. „En flestir sem hringdu höfðu skilning á því að verktakinn þyrfti vinnufrið til að klára verkið,“ segir Valgeir.

Um helgina var unnið í áfram haldandi axlarsteypu, rafbúnaðarvinnu um öll göng og einnig hófst borun og uppsetning á festingum fyrir gangablásara í þak ganganna.

Gjaldskráin birt í næstu viku

Gjaldskrá í Vaðlaheiðargöng verður birt þann 11. desember í síðasta lagi að sögn Valgeirs Bergmanns framkvæmdastjóra Vaðlaheiðarganga. Til stóð að birta verðið í göngin um mánaðarmótin síðustu. 

„Þar sem við erum ekki komnir með staðfestan opnunardag þá var ákveðið að vera ekki að birta gjaldskránna strax. Ég reikna með að það verði gert í síðasta lagi 11. desember,“ segir Valgeir. Óvíst er hvenær hægt verði að opna göngin fyrir almenna bílaumferð en það gæti skýrst í næstu viku.


Athugasemdir

Nýjast