Starfsemin á Sjúkrahúsinu á Akureyri fyrstu fjóra mánuði ársins var meiri en á sama tíma á síðasta ári en þó var apríl á svipuðu róli og 2011. Sjúklingum hefur fjölgað um 9,5% miðað við sama tímabil á síðasta ári. Stöðug aukning hefur verið á komur á dag- og göngudeildir. Skurðaðgerðum fjölgaði um 3,5% og fæðingum um 34%. Þetta kemur fram í pistli Bjarna Jónassonar forstjóra á heimasíðu sjúkrahússins. Almennum rannsóknum hefur heldur fækkað en myndgreiningar hafa aukist, þá eru aðrar rannsóknir fleiri. Starfsmenn á tímabilinu voru 551 en 572 á síðasta ári. Álag hefur því víða aukist og því er mikilvægt að við öll finnum leiðir til að bregðast við á sem bestan hátt með öryggi sjúklinga og okkar að leiðarljósi. Bestu þakkir til ykkar fyrir gott starf á álagstímum, segir Bjarni.
Enn ein hagræðingaraðgerðin sem varð til á hugarflugsfundum okkar á síðasta ári er að fara í innleiðingu en það er breyting á vinnulagi við prentun og ljósritun, svokölluð Rent a Prent lausn, en hún mun skila hagræðingu með lægri prentkostnaði og auka kostnaðarvitund innan hvers sviðs, segir Bjarni ennfremur.
Í þessari viku verða nokkrir starfsmannafundir þar sem m.a. verður kynnt niðurstaða viðhorfskönnunar meðal heilbrigðisstarfsmanna á sjúkrahúsinu.