Sjúklingar og starfsmenn á FSA hafa veikst af nóróveirusýkningu

Nóróveirusýking er komin upp á Sjúkrahúsinu á Akureyri, búið er að loka lyfjalækningadeild tímabundið og skipta upp, hand- og bæklunardeild. Sigurður Sigurðsson staðgengill framkvæmdastjóra lækninga, segir að einir 6 sjúklingar og 3-4 starfsmenn hafi veikst. Hann segir að fyrstu tilfellin hafi komið upp hjá sjúklingi í byrjun vikunnar en sýkingin hafi svo blossað upp á miðvikudagsmorgun.  

Þann dag og um nóttina sýktust nokkrir sjúklingar og nokkrir starfsmenn sem fóru heim. "Þá strax lokuðum við lyflækningadeildinni fyrir nýjar innlagnir og reyndum að senda alla sjúklinga, sem hægt var, sem fyrst heim. Við héldum þeim sem voru sýktir og þurftu að vera áfram á spítalanum á þeirri deild. Þetta gengur yfirleitt fljótt yfir en reyndar komu upp tvö tilfelli annars staðar, sem ég held að okkur hafi tekist að einangra strax. Það hafa því eingöngu verið bráðainnlagnir á spítalann þessa dagana."

Sigurður segir að það ráðist um helgina hvort tekist hafi að komast fyrir þetta með þessum aðgerðum. "Eins og staðan er núna, erum við nokkuð bjartsýnir á það en maður veit þó aldrei. Þetta er bráðsmitandi og gengur yfirleitt fljótt yfir en það eru starfsmenn einn veikir heima. Þetta getur verið ansi hvasst en fyrir fullfrískt fólk er þetta ekki meira en venjuleg uppgangs- og niðurgangspest. Þetta getur hins vegar orðið erfiðara ef fólk er mjög veikt fyrir."

Sigurður segir að aðalröskunin hafi verið sú að stöðva hefur þurft svokallaðar valinnlagnir en öllum bráðainnlögnum er sinnt. "Við höfum haft samband við staðina hér í kringum okkur um það að þeir reyni að senda sem fæsta sjúkinga til okkar á meðan þetta gengur yfir."

Nýjast