Yfirlýsing sjómannanna er þess efnis að þeir ætli sér að vera áfram félagar í Sjómannafélagi Eyjafjarðar sem þá mun sjá um og annast samningamál þeirra. „Já, ég hef fengið stuðningsyfirlýsingar frá öllum mönnunum á skipunum þremur sem eru í okkar félagi og einnig okkar félagsmönnum sem eru á öðrum skipum Brims. Þessi stuðningur er mér og félaginu afar mikilvægur og sannfærir okkur um að við höfum verið með réttan málflutning og verið að gera rétta hluti. Ég er virkilega ánægður með þennan stuðning," segir Konráð.
Eins og fram hefur komið í Vikudegi hefur Brim tekið ákvörðun um að færa togara félagsins, sem hafa verið með einkennisstafina EA, yfir á einkennisstafina RE. Guðmundur forstjóri Brims sagði að eina ástæða þessa væru samstarfsörðugleikar við Sjómannafélag Eyjafjarðar og þá sérstaklega formann félagsins. Hann sagði að þrátt fyrir þessa breytingu stæði ekki til að fara með togarana til Reykjavíkur eða skerða rekstur félagsins á Akureyri á nokkrun hátt.