23. apríl, 2007 - 14:05
Fréttir
Í dag var stofnað sérstakt félag á Akureyri til undirbúnings þess að í bænum rísi sjávarsafn og rannsóknamiðstöð um menningu og lífríki við Norðurhöf. Safnið yrði mjög umfangsmikið og eitt af meginsöfnum landsins. Fyrstu hugmyndir gera ráð fyrir að safnsvæðið verði allt að 5000 fermetrar að stærð og að kostnaður við að koma safninu á fót geti orðið um 2 milljarðar króna. "Heimur Norðurhafa" yrði fyrsta safnið á Íslandi sem hefði þann tilgang að mennta fólk um hafið og menningu sjávarbyggða. Markmiðið með formlegu undirbúningsfélagi er að hafa frumkvæði að frekari forvinnu sem síðan verði lögð fyrir opinbera aðila, sem og fjárfesta, þegar kemur að því að afla verkefninu fjármagns til að hrinda því í framkvæmd. Upphaf málsins má rekja til þess að fyrir nokkru mynduðu áhugasamir einstaklingar starfshóp um byggingu sjávarsafns og rannsóknamiðstöðvar á Akureyri sem sérstaklega væri miðuð að menningu og lífríki við Norðurhöf. Hugmyndin gengur út á veglegt sjávardýra-, sjávarlíffræði- og sjávarvistkerfissafn á heimsvísu. Einnig yrði í safninu fjallað um samfélög og menningu við ysta haf. Hugmyndin hefur verið kynnt fjölmörgum aðilum og undantekningalaust fengið góð viðbrögð og áhuga. Á seinni stigum vinnunnar hefur verkefnið fengið stuðning Vaxtarsamnings Eyjafjarðar, auk þess sem fulltrúar Akureyrarbæjar hafa fylgst með hugmyndavinnunni.
Auk þess að mennta fólk um hafið og menningu sjávarbyggða, væri tilgangurinn ekki síst að fræða og breiða út skilaboð um sjálfbæra nýtingu og umhverfismál sjávar. Til þess yrði beitt allri nýjustu og fullkomnustu tækni sem þekkt er í safnaheiminum í dag því markmiðið er að safnið verði sönn upplifun fyrir þá sem það sækja heim.