Sjallinn lokaður þar til öryggis- kröfum hefur verið fullnægt

Þorbjörn Haraldsson slökkviliðsstjóri á Akureyri og Pétur Bolli Jóhannesson skipulags- og byggingarfulltrúi, hafa sent frá sér yfirlýsingu vegnar fréttar á mbl um helgina, þess efnis að búið væri að opna Sjallann á  ný. Þar árétta þeir að Sjallinn sé lokaður og verði lokaður þar til að öllum öryggiskröfum til veitingarekstursins verði fullnægt.

"Um tímabundna opnun var að ræða í hluta hússins s.l. laugardagskvöld. Iðnaðarmenn eru við störf í húsinu við úrbætur sem ekki er lokið. Embætti byggingafulltrúa hafa ekki borist endurskoðaðar aðalteikningar af veitingastaðnum en gert er ráð fyrir að þeim verði skilað inn fyrir afgreiðslufund á miðvikudag. Í framhaldinu verður gerð úttekt á staðnum á ný og ef í ljós kemur að staðurinn uppfyllir kröfur byggingarreglugerðar þ.m.t. öryggismálum getur veitingareksturinn hafist á ný," segir ennfremur í yfirlýsingu slökkviliðsstjóra og byggingarfultrúa.

Eins og fram kom í Vikudegi sl. fimmtudag, brenndist eldgleypir sem var að skemmta gestum Sjallans um þar síðustu helgi í andliti við iðju sína og var kallað á sjúkrabíl og lögreglu. Þegar sjúkraflutningamenn ætluðu að flytja manninn út um neyðardyr hússins, voru þær læstar með lykli og auk þess skrúfaðar aftur. Þorbjörn Haraldsson slökkviliðsstjóri var í kjölfarið kallaður út af lögreglu, þar sem öryggi gesta var verulega ógnað, að hans sögn. Slökkviliðsstjóri og eldvarnareftirlit hafa farið yfir þetta mál, sem litið er mjög alvarlegum augum. Til viðbótar er í gangi lögreglurannsókn á atvikinu en bannað er að vera með opinn eld á skemmtistöðum. "Við reglulegt eftirlit skemmtistaða árið 2008, var samskonar atriði eldgleypis stöðvað af eldvarnareftirlitsmönnum. Forsvarsmönnum Sjallans var því ljóst að þetta væri bannað," sagði Þorbjörn í frétt Vikudags.

Nýjast