Sjálfstæðisflokkur stillir upp á framboðslista í Norðurþingi

Á sameiginlegum fundi sjálfstæðisfélaganna í Norðurþingi sem haldinn var á miðvikudag sl. var samþykkt sú ákvörðun að skipan fólks á framboðslista fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar færi fram með uppstillingu. Uppstillingarnefnd var jafnframt skipuð á fundinum og mun hefja störf á næstu dögum.

Í bókun sem sjálfstæðisfélögin sendu frá sér í kjölfarið er deilt á það að misbrestur hafi orðið í opinberri umræðum störf sveitarstjórnarfulltrúa. „Slíkt vekur óhjákvæmilega upp spurningar um hvers konar samfélag við í Norðurþingi viljum byggja og með hvaða hætti við viljum að horft sé til okkar ágætu byggða og íbúa. Okkar sýn er að við byggjum samfélag þar sem ríkir virðing, góðvild og samstaða á milli íbúa,“ segir í bókuninni.

Þá kemur einnig fram að listi Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna hafi starfað saman í meirihluta sveitarstjórnar Norðurþings frá árinu 2014 og með Samfylkingu frá 2018. „Í samstarfi sem hefur jafn breitt bakland og framangreindir flokkar getur reynt á samstöðuna. Það er mikilvægt þegar það gerist að eiga í hreinskiptum samskiptum og leitast eftir sem breiðastri sátt við úrlausn mála. Það teljum við að hafi tekist vel til meðal samstarfsflokkanna,“ segir í bókun fundarins.

Þá lýsir félagsfundur Sjálfstæðisfélaganna í Norðurþingi yfir stuðningi við sveitarstjóra og samstarf meirihluta sveitarstjórnar.


Nýjast