Silja ráðin samskiptastjóri Háskólans á Akureyri

Silja Jóhannesar Ástudóttir. Mynd/ Halldóra Krístín Bjarnadóttir.
Silja Jóhannesar Ástudóttir. Mynd/ Halldóra Krístín Bjarnadóttir.

Silja Jóhannesar Ástudóttir hefur verið ráðin í starf samskiptastjóra Háskólans á Akureyri. Hún tekur við starfinu af Katrínu Árnadóttur, sem undanfarin sjö ár hefur verið forstöðumaður Markaðs- og kynningarmála, og er hér því um nýtt starfsheiti að ræða með örlítið breyttum áherslum.

Hvaðan er Silja? „Ég er fædd í Glæsibæjarhreppi, sem í dag er Hörgársveit, flutti sem unglingur til Akureyrar og fór þaðan um tvítugt til Reykjavíkur. Það má segja að ég sé samsett frá mörgum stöðum eftir að hafa prófað búsetu víðsvegar á Íslandi,“ segir hún.

Silja er með MBA-gráðu frá Háskólanum í Reykjavík og BA-gráðu í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands, en auk þess hefur hún stundað nám í viðskiptafræði við Háskólann á Akureyri. Undanfarin ár hefur Silja starfað sjálfstætt sem verkefnastjóri og ráðgjafi við einstaklinga og fyrirtæki er varðar stofnun fyrirtækja, fjármögnun, sölu, viðskiptaáætlanir, vöruþróun, markaðssetningu, styrkjaumsóknir og tengslanet. Hún hefur komið að mörgum verkefnum sem tengjast sérstaklega nýsköpun á landsbyggðunum og starfaði áður m.a. hjá Samtökum sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE) og Capacent. Almannatengsl hafa verið samofin þeim verkefnum sem Silja hefur annað hvort komið að eða stýrt undanfarin ár og þar á meðal mikil samskipti við fjölmiðla, stjórnvöld, fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög. Silja hefur nú þegar störf í hlutastarfi en kemur inn í fullt starf í haust.

Tækifæri í því hvernig HA kemur til móts við þarfir samfélagsins

„Það er alltaf áskorun að fara inn í jafn fjölbreytt samfélag og háskóli er, þar sem eru margir mismunandi hópar fólks sem þarf að tengja, skilja og sjá til þess að allir hafi rödd. Tækifærin felast klárlega í því hversu vel Háskólinn á Akureyri hefur nýtt sér tækifæri sem felast í tækninni og sveigjanleikanum í ekki stærri skóla hvað varðar það að koma til móts við þarfir samfélagsins,“ segir Silja.

En hvers hlakkarðu mest til í nýju starfi? „Að kynnast öllu fólkinu og fá tækifæri til að koma á framfæri og móta tækifærin sem felast í skólanum til framtíðar,“ segir Silja að lokum.

Fyrir starfa innan Markaðs- og kynningarmála Háskólans á Akureyri Kristjana Hákonardóttir, verkefnastjóri og vefstjóri, og Sólveig María Árnadóttir, verkefnastjóri samfélagsmiðla og samskipta.


Athugasemdir

Nýjast