Sigurður sagði sig úr Sjálfstæðisflokknum og boðar nýtt framboð

Sigurður Guðmundsson verslunarmaður á Akureyri, sem hafnaði í 6. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins fyrir bæjarstjórnarkosningarnar í vor, sagði sig úr flokknum í gærkvöld og ætlar að mæta með nýtt framboð til leiks í vor. "Ég hafði tekið ákvörðun um að taka 6. sætið en á fundinum í gærkvöld kom fram tillaga frá kjörnefnd um að færa mig niður í 9. sæti og var sú tillaga samþykkt. Ég sagði mig í kjölfarið úr flokknum og gekk af fundi ásamt fleira fólki," sagði Sigurður.  

Sigurður segir að það hafi vantað 40 atkvæði upp á að hann fengi bindandi kosningu í 6. sætið, "Ég fékk um 20% í 1. sætið í prófkjörinu, sem kom mér gríðarlega á óvart og mig vantaði 25 atkvæði til að ná 4. sæti listans. Ég hef hins vegar verið mjög gagnrýnin á það sem miður hefur farið í bæjarfélaginu og hafði vitað það um tíma að það yrði lögð fram tillaga um breytingu á listanum og ég færður til. Ég tel að þessi niðurstaða sé í samræmi við vilja forystunnar og er feginn því að hafa stigið þetta skref og ætla að mæta galvaskur með nýtt framboð í vor. Það hafa margir haft samband við mig og lýst yfir áhuga á að vera með og öðru hvoru megin við helgina verður farið í að safna saman fólki og hefja undirbúningsvinnu," sagði Sigurður. "Það verður alla vega ekkert vandamál að manna þennan lista."

Hann segir að um 650 manns séu án atvinnu og aðrir 300 í hlutastörfum en að bærinn sé ekki að bregðast við þessu ástandi með neinum hætti. Þá hafi ekkert verið að gerast varðandi málefnavinnu hjá Sjálfstæðisflokknum fyrir kosningarnar framundan. "Það er heldur ekki mikill vilji innan flokksins til breytinga."

Framboðslisti Sjálfstæðisflokksins við sveitarstjórnarkosningarnar þann 29. maí nk. var samþykktur á fundi fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna á Akureyri í gærkvöld, eins og fram kemur hér á vefsíðunni.

Nýjast