Sigurður gefur kost á sér í 1.-2. sætið hjá Sjálfstæðisflokknum

Sigurður Guðmundsson gefur kost á sér í 1.-2. sætið í prófkjöri sjálfstæðismanna sem haldið verður laugardaginn 13. febrúar nk. á Akureyri. Sigurður er fæddur þann 8. mars 1969.  Hann er sonur Guðmundar Sigurðssonar kaupmanns og Laufeyjar Einarsdóttur. Sigurður ólst upp á Akureyri og hefur búið þar alla tíð fyrir utan tvö ár í Grundarfirði þar sem hann stundaði sjómennsku.  

Sigurður útskrifaðist frá Verkmenntaskólanum á Akureyri árið 1989 af viðskiptabraut. Hann starfaði í verslun afa síns Sigurðar Guðmundssonar frá barnsaldri og síðar í verslun föður síns. Sigurður stundaði sjómennsku í 6 ár eða þar til hann stofnaði til rekstrar með ferðamannaverslunina  The Viking  á Akureyri. Í dag eru verslanirnar fjórar, ein á Akureyri og þrjár í Reykjavík. Hann er kvæntur Jónborgu Sigurðardóttur myndlistarkonu og eiga þau þrjú börn, Kolfinnu fædda árið 1998,  Guðmund fæddur árið 1999 og Sjöfn fædd árið 2006.

Sigurður hefur löngum látið málefni íbúa Akureyrarbæjar sig varða og beitt sér með margvíslegum hætti til þess að auka umferð ferðamanna um svæðið. Sigurður er þekktur fyrir framtakssemi en það vakti t.d. verðskuldaða athygli þegar Sigurður stóð fyrir því að tyrfa Ráðhústorgið en ásýnd miðbæjarins er eitt af áhugamálum hans. Sigurður hefur metnað og reynslu til þess að bera þá ábyrgð sem fylgir rekstri sveitafélagsins, segir m.a. í fréttatilkynningu.

Nýjast