Sigrar hjá Þór og Þór/KA

Þórsarar lögðu Leikni frá Fáskrúðsfirði 3-1 í B-deild karla í deildarbikarkeppninni í knattspyrnu um helgina. Leikurinn fór fram í hinni glæsilegu Fjarðabyggðarhöll á Reyðarfirði.

Leiknir spilar í 3. deild á Íslandsmótinu næsta sumar og því áttu flestir von á því að Þórsarar sem eru í 1. deild myndu hafa töluverða yfirburði og sú varð raunin. Leiknir komst reyndar í 1-0 með marki úr vítaspyrnu en Þórsarar komust svo yfir 2-1 fyrir hálfleik með mörkum Andra Ásgrímssonar og Helga Jones.

Í síðari hálfleik bætti Þórður Arnar Þórðarson við einu marki fyrir Þórsara þegar hann “klippti” boltann glæsilega í markið úr þröngu færi. Þórsarar fengu fleiri færi til að skora en tókst það ekki, þrátt fyrir yfirburði á vellinum.

Sigur hjá stelpunum

Stelpurnar í sameinuðu liði Þórs og KA gerðu góða ferð suður á sama tíma og mættu Fjölni í deildarbikarkeppni kvenna í roki og leiðinda veðri á Fylkisvellinum í Árbæ. Fjölnir er eins og Þór/KA í úrvalsdeild og var því von á hörkuleik. Þór/KA komst í 1-0 með marki frá hinni ungu og efnilegu Örnu Sif Ásgrímsdóttur en Fjölnir jafnaði um hæl 1-1. Norðanstúlkur komust aftur yfir með marki frá markamaskínunni Rakel Hönnudóttur, Fjölnir jafnaði hins vegar aftur í 2-2 fyrir hálfleik. Í síðari hálfleik skoraði Freydís Anna Jónsdóttir sigurmarkið fyrir Þór/KA þegar skammt var til leiksloka og þar við sat.

Nýjast