Unnsteinn er formaður knattspyrnudeildar Þórs en hann neitar því að þessi tillgaga sé sett fram gegn Sigfúsi. Unnsteinn segir það fyrirkomulag sem hann leggur til sé alþekkt t.d. hjá hlutafélögum. Hann segir að með núverandi skipulagi hjá Þór hafi stjórnin ekki það aðhald sem nauðsynlegt er. Sigfús hefur verið formaður Þórs frá því í mars 2006 og framkvæmdastjóri aðeins skemur. "Ég ætla að gefa kost á mér áfram, því ég tel að við séum að skila góðu búi og það er hagnaður af rekstri félagsins, eins og stefnt var að. Við ætlum ótrauðir að halda áfram því góða starfi sem ég tel að stjórnarmenn félagsins hafi verið að vinna undir minni forystu. Ég hef fengið mikinn stuðning frá deildum félagsins og fleirum og met það mikils. Og það verður lögð fram tillaga um óbreytta stjórn á aðalfundinum," sagði Sigfús.
Hann segir að tillaga Unnsteins verði tekin til umræðu og það verði hver og einn að hafa sína skoðun á því hvernig þessum málum er háttað. "Mér finnst það samt mjög sérstakt þegar menn koma fram með lagabreytingu, sem er nánast sett fram út á andlit starfsmanns félagsins. Við eigum að virða lögin og vinna eftir þeim en að vilja binda hendur stjórnar með þessum hætti finnst mér mjög sérstakt. Ef menn vilja breyta þessu þá er það svo en ég minni á að ástandið var ekki gott þegar við komum að þessu starfi fyrir fjórum árum."
Sigfús sagðist mjög sáttur við reksturinn á síðasta ári og þá miklu uppbyggingu sem fram hefur farið á svæðinu, ekki síst þar sem Þór þurfti að taka á sig umtalsverðar skuldbindingar vegna þessarar uppbyggingar.