Sigfús Ólafur endurkjörinn formaður Íþróttafélagsins Þórs

Sigfús Ólafur Helgason var endurkjörinn formaður Íþróttafélagsins Þórs á aðalfundi félagsins í kvöld. Aðrir stjórnarmenn félagsins, þeir Árni Óðinsson, Nói Björnsson og Páll Jóhannesson voru einnig endurkjörnir í stjórn. Halldór Áskelsson var endurkjörinn í varastjórn félagsins og Valdimar Pálsson kom nýr inn í varastjórn.  

Tap varð á samstæðureikningi félagsins á síðasta ári upp á 5,6 milljónir króna og er sú niðurstaða mönnum mikil vonbrigði. Haukur Valtýsson, sem átti sæti í landsmótsnefnd vegna Landsmóts UMFÍ sem fram fór á Akureyri í sumar, mætti á aðalfund Þórs í kvöld og færði félaginu að gjöf stóra ljósmynd af Þórsvellinum, fyrir hönd nefndarinnar. Haukur sagði að samstarfið við Þór í tengslum við landsmótið hefði gengið mjög vel og þakkaði Sigfúsi formanni sérstaklega fyrir hans hlut.

Nýjast