Það var líf og fjör í Íþróttahöllinni á Akureyri þegar nýtt keppnistímabil Skólahreysti hófst í gær en þar fór fram keppni í fyrstu tveimur undanriðlum keppninnar. Áhorfendamet keppninnar á Akureyri var slegið en um 2.000 stuðningsmenn mættu í Höllina til að hvetja skólafélaga sína.
Í fyrri undanriðlinum kepptu skólar af Norðurlandi og eftir mjög jafna baráttu varði Varmahlíðarskóli titil sinn og því fer skólinn í úrslit annað árið í röð. Varmahlíðarskóli hlaut 54 stig en í öðru sæti var lið Dalvíkurskóla með 48 stig. Lið Grunnskóla Hólmavíkur tryggði sér loks þriðja sætið með 41 stig. Þess má geta að lið Hólmavíkur var að keppa í fyrsta sinn í Skólahreysti.
Í seinni riðlinum mættust skólar frá Akureyri og Eyjafirði og börðust hart um sæti í úrslitum. Síðuskóli sigraði með 45 stig, Hrafnagilsskóli náði öðru sæti með 30 stig og í þriðja sæti varð lið Oddeyrarskóla með 28,5 stig. Rétt er að geta þess að þeir tveir skólar sem ná besta árangri í öðru sæti úr öllum undanriðlum komast lík í úrslitakepppnina. Lið Dalvíkurskóla og Hrafnagilsskóla bíða því eftir úrslitum úr öðrum riðlum.