Siðareglur kjörinna fulltrúa til afgreiðslu bæjarstjórnar

Stjórnsýslunefnd hefur samþykkt fyrirliggjandi drög að siðareglum kjörinna fulltrúa hjá Akureyrarbæ og vísað þeim til afgreiðslu bæjarstjórnar. Tilgangur þeirra er m.a. að vera leiðarvísir fyrir fulltrúa í bæjarstjórn Akureyrar og nefndum sem bæjarstjórn kýs svo og varamenn þeirra.  

Markmið reglnanna er að skilgreina það hátterni og viðmót sem kjörnum fulltrúum ber að sýna við skyldustörf sín á vegum Akureyrar­bæjar. Jafnframt eiga siðareglurnar að upplýsa íbúa og starfsmenn sveitar­félagsins um hvaða hátternis þeir geti vænst af kjörnum fulltrúum.

Ennfremur segir í drögunum að; Kjörnum fulltrúum ber að setja almannahagsmuni ofar sérhagsmunum. Þeir taka ekki þátt í undirbúningi og afgreiðslu mála sem varða sérhagsmuni þeirra sjálfra, venslamanna, skjól­stæðinga eða annarra sem tengjast þeim svo sérstaklega að ætla megi að afstaða þeirra mótist að einhverju leyti af þeim tengslum. Kjörnir fulltrúar þiggja ekki gjafir, fríðindi eða annan viðurgjörning frá viðskipta­mönnum Akureyrarbæjar eða þeim er leita eftir verkefnum eða þjónustu bæjarins, þannig að túlka megi sem persónulega þóknun fyrir ákvarðanir á vegum bæjarstjórnar eða nefnda.

Kjörnir fulltrúar láta ákvarðanir sínar einungis ráðast af lögum, reglum bæjarstjórnar og sannfæringu sinni í störfum sínum fyrir Akureyrarbæ. Þeir gæta hagsmuna sveitar­félagsins og vinna að sameiginlegum velferðar­málum bæjarbúa. Kjörnir fulltrúar gæta þess að framkoma þeirra og athafnir á vettvangi Akureyrarbæjar samrýmist starfinu sem þeir gegna og forðast að aðhafast nokkuð sem er þeim til vanvirðu eða álitshnekkis eða sem varpað getur rýrð á störf þeirra eða sveitarfélagsins. Í störfum sínum skulu kjörnir fulltrúar koma fram af háttvísi og sýna hver öðrum, viðskiptamönnum og starfsmönnum sveitarfélagsins fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu, segir m.a. í drögunum.

Nýjast