Samgönguráðherra, Kristján Möller, mun setja átakið af stað á táknrænan hátt á BSÍ, laugardagsmorguninn klukkan átta og í kjölfarið kynna viðstöddum átakið. Fulltrúar Öryrkjabandalags Íslands og Landssambands eldri borgara munu einnig segja nokkur orð af þessu tilefni. Átakið felur í sér að Bílar og fólk munu lækka öll fargjöld um helming fram til áramóta. Þeir farþegar sem nú þegar njóta afsláttarkjara, svo sem eins og öryrkjar, ellilífeyrisþegar, börn og skólafólk, munu frá 3. október einnig greiða eingöngu helming af því sem þeir hafa greitt fram til þessa. Öll fargjöld lækka um helming.
Vart þarf að taka fram að um mikla kjarabót er að ræða fyrir almenning og er það von þeirra sem að því standa að þetta muni hjálpa almenningi að takast á við það ástand sem skapast hefur á Íslandi undanfarið, segir í fréttatilkynningu. Markmið átaksins eru hinsvegar fleiri. Átakið mun vonandi varpa ljósi á hvaða hlutverki verðlagning gegnir í nýtingu almenningssamgangna á Íslandi. Von Bíla og fólks og samgönguráðuneytisins er einnig að þetta átak stuðli að góðri kynningu á þeim valkosti sem áætlunarferðir langferðabifreiða eru á við aðra samgöngumáta hvað varðar verð, gæði og umhverfisáhrif.