Seldu möffins fyrir rúmlega hálfa milljón

Veðrið hefur leikið við gesti Einnar með öllu.
Veðrið hefur leikið við gesti Einnar með öllu.

Skipuleggjendur hátíðarinnar Einnar með öllu á Akureyri segja hátíðina hafa gengið vel hingað til. Blíðskaparveður lék við gesti í gær og mikill fjöldi fólks kom saman á Ráðhústorginu. Hið árlega Mömmur og möffins fór fram í Lystigarðinum í gær þar sem rúmlega 570.000 krónur söfnuðust en alls seldust 1600 möffins kökur. Peningarnir renna til fæðingardeildar Sjúkrahússins á Akureyri en fyrir upphæðina verður keypt augnskoðunartæki auk blóðskimunartækis fyrir nýbura. 

Síðasti dagur hátíðarinnar er í dag og er fjölbreytt dagskrá. Ein með öllu, rauðkáli og allt undir ásamt kóki í bauk með lakkrísröri kemur þar við sögu með hjálp Goða, Vífilfells og Góu. Þessi árlegi viðburður hefst við Iðnaðarsafnið á Akureyri  kl.13:00.

Þá mun ungt fólk spreyta sig á sviðinu á Glerártorgi kl. 15:00 þar sem Söngkeppni unga fólksins fer fram. Vinningshafarnir stíga hugsanlega sín fyrstu skref í átt að frægðarsólinni á Sparitónleikunum í kvöld með stórstjörnunum sem þar koma fram. Tónleikarnir í kvöld verða á leikhúsflötinni fyrir framan Samkomuhúsið og þar koma m.a. fram Kaleo og Stjórnin. Eftir tónleika verður svo boðið upp á flugeldasýningu.

 

Nýjast