Sektir vegna stöðubrota á Akureyri hækka

Miðbærinn á Akureyri. Mynd/Hörður Geirsson.
Miðbærinn á Akureyri. Mynd/Hörður Geirsson.

Bæjarstjórn Akureyrar hefur samþykkt breytingu á gjaldskrá bifreiðastæðasjóðs sem tekur gildi frá 1. júlí næstkomandi. Þá verða gjöld vegna stöðubrota, þegar ökutækjum er lagt ólöglega, hækkuð úr 11.000 krónum í 20.000 krónur.

Á vef Akureyrarbæjar segir að þetta sé hluti af átaki sveitarfélagsins til að koma í veg fyrir að bifreiðum sé lagt ólöglega. Jafnframt á að leggja aukna áherslu á að upplýsa ökumenn um þær reglur sem gilda þannig að auðveldara sé að fylgja þeim og komast hjá sektum. Með þessari hækkun eru gjöldin í samræmi við sektir sem lögreglan leggur á fyrir sams konar brot.

Hvaða sektir eru þetta? 

Breytingin á við um almenn stöðubrot. Gjöld vegna „klukkubrota“ eru óbreytt. Klukkubrot er það þegar ökumenn leggja í þar til gerð merkt stæði í miðbænum og nágrenni hans án þess að stilla sýnilega bílastæðaklukku eða ef ökutæki er of lengi í slíkum stæðum og leyfilegur stöðutími rennur út.

Undir almenn stöðubrot fellur til dæmis að leggja ökutækjum:

  • Á gangstétt
  • Á móti umferð
  • Á/við gangbraut
  • Í snúningshaus botnlangagötu
  • Þar sem umferðarmerki gefa til kynna að það sé bannað

Auk þess er stöðubrot að leggja bifreiðum í stæði fyrir fatlað fólk ef viðkomandi hefur ekki P-merki. Hins vegar er heimilt að leggja bifreiðum í almenn bílastæði og samhliða umferð, hægra megin, við ystu brún götu og við hliðina á gangstéttum. 

 

Nýjast