Segja upp ræstingafólki í hagræðingarskyni

Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Húsavík. Mynd/epe
Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Húsavík. Mynd/epe

Heilbrigðisstofnun Norðurlands (HSN) bauð nýverið út ræstingar og þrif á fimm starfsstöðvum HSN á Norðurlandi, í samstarfi við Ríkiskaup. Aðeins bárust tilboð í ræstingar á starfstöðvum stofnunarinnar á Húsavík og Akureyri.

Fyrirtækið Dagar átti eina tilboðið í ræstingar á Húsavík, liðlega 29,7 milljónir á ári. Lægsta tilboð á Akureyri átti fyrirtækið Hreint með rétt tæplega 8,3 milljónir. Gengið hefur verið til samninga við fyrirtækin. Ekki bárust tilboð í starfstöðvar á Sauðárkróki, Blönduósi og Siglufirði.

Jón Helgi Björnsson forstjóri HSN segir í samtali við Vikublaðið að útvistun ræstinga hjá stofnuninni sé liður í sparnaðaraðgerðum vegna hallarekstrar.

„Þetta er einfaldlega gert til að lækka kostnað. Það er þungur rekstur hjá stofnuninni og nauðsynlegt að reyna ná niður kostnaði,“ segir Jón og bætir við að þessar aðgerðir muni spara stofnuninni á bilinu 15-20 milljónir á ársgrundvelli.

 Aðgerðunum mótmælt

Hagræðingin hefur lagst illa í starfsfólk allra deilda sem hefur hrundið af stað undirskriftarlistum til að mótmæla aðgerðunum. Aðalsteinn Á. Baldursson, formaður Framsýnar stéttarfélags er einnig harðorður í gagnrýni á hagræðinguna.

„Ég gef lítið fyrir útskýringar stjórnenda HSN. Hér er verið að ráðast að konum í láglaunastörfum. Þangað er ekkert að sækja til að laga fjárhagsstöðu stofnunarinnar,“ segir Aðalsteinn í samtali við Vikublaðið. Starfsmönnum var tilkynnt formlega um þessar breytingar á fundi með yfirmönnum HSN þar sem þeim voru afhent uppsagnarbréf. Aðalsteinn var viðstaddur fundinn þar sem hann skoraði á stjórnendur að draga þessa ákvörðun til baka. Því var hafnað.  

 Hefur skilning á óánægjunni

„Við höfum auðvitað skilning á því að fólk sé ekki ánægt með þetta. Staðreyndin er engu að síður sú að stofnunin er rekin með halla og við verðum að nýta alla möguleika til að lækka kostnað án þess að hafa árif á þjónustuna,“ segir Jón Helgi og bætir við að verið sé að beita örútboðum á alls konar kostnaðarliði.

„Okkar hlutverk sem stjórnenda er að tryggja þjónustu. Þess vegna leitum við ítrustu leiða til að hagræða í rekstrinum án þess að skerða þjónustuna,“ ítrekar Jón Helgi.


Athugasemdir

Nýjast