Eyrarrokk – lítil tónleikahátíð með stórt hjarta

Bjössi Basti, eða  Björn Helgi Baldvinsson     Myndir Barði Westin
Bjössi Basti, eða Björn Helgi Baldvinsson Myndir Barði Westin

Helgina 3. – 4. október var haldin tónleikahátíðin Eyrarrokk. Þetta var fimmta hátíðin á jafn mörgum árum og hefur hún vaxið og dafnað með árunum og nú er svo komið að miðarnir seljast eins og heitar lummur um leið og tónleikarnir eru auglýstir. Það er nú ekki oft sem maður ákveður í maí hvað maður ætlar að gera í október.

Í ár var ekki kastað til höndunum frekar en fyrri ár með uppstillingu hljómsveita. Þar rak hver bomban aðra og oftar en ekki hélt maður að nú væri topp kvöldsins náð, svo var aldeilis ekki því næsta hljómsveit fór með mann á næsta topp.

Í aðdraganda föstudagsins komu þau leiðinlegu tíðindi að fyrsta hljómsveit kvöldsins, Lost, væri eiginlega lost þar sem einn meðlimur sveitarinnar komst ekki. Þá voru góð ráð dýr en sem betur fer stendur tónlistarheimurinn þétt saman. Þannig að eftir að Logi Einarsson, menningarmálaráðherra setti hátíðina birtist afleysingarhljómsveitin. Hún átti að byrja klukkan 21 á Græna Hattinum en Skálmaldar menn sáu sér leik á borði og poppuðu, eða rokkuðu réttara sagt, upp á Vitanum og störtuðu herlegheitunum. Það tókst jafnvel og það hljómar. Ég hef ekki mætt á Skálmaldartónleika en eftir þetta óvænta atriði er nokkuð ljóst að það verður keyptur miði næst þegar þeir bregða sér norður yfir Öxnadalsheiðina. Hreint stórkostlegt band og segir mikið um þá félaga að skjótast í hálftíma til að spila fyrir örvasa gamalmenni á Verkstæðinu / Vitanum, fyrir lítinn sem engan pening. Bara, bara til að bjarga tónleikahátíðinni um sjötta atriðið þetta kvöld.

Í kjölfar Skálmaldar mættu Biggi Maus og Memm, það var ekki auðvelt að koma í kjölfar Skálmaldar en Bigga og félögum óx ásmegin eftir því sem leið á og þeir luku sínu giggi með stæl.

Á eftir Bigga og Memm rák hvert stórbandið annað og hver toppurinn af öðrum var tekinn. ToyMachine kom í kjölfar Bigga og Memm með stórkostlega frammistöðu þar sm Baldvin Zeta gerði heiðarlega tilraun til að rústa trommusettinu. Bleiku bastarnir voru næstir og þeir batna með hverju árinu, því þeir voru frábærir í fyrra en jafnvel enn betri í ár enda Björn söngvari ekki lengur í gifsi og Maggi Scheving hefði verið hreykinn af þeirri hreyfigetu sem hann býr yfir.

Tvö síðustu böndin þarf ekki að kynna fyrir fólki. 200.000 Naglbítar voru gersamlega frábærir og tóku yfir kvöldið með trukki og dýfu. Þeir eiga mörg vinsæl lög og ekki að ósekju því lögin þeirra eru grípandi og vel samin og ekki skemmir fyrir að þremenningarnir eru meira en frambærilegir hljóðfæraleikarar. Skriðjöklar lokuðu síðan kvöldinu með sínu sniði, skemmtileg lög, þéttir og hressir og fengu fólkið heldur betur með sér. Eins má geta þess að menningamálaráðherrann fór á svið með Skriðjöklum eins og forðum. Gott þegar fólk tekur sig ekki alltaf of alvarlega.

Laugardagurinn var eitthvað til að hlakka til enda ekki síðri bönd þar en á föstudeginum.

Texas Jésús riðu á vaðið og settu markið frekar hátt. Þeir komu öllum í gírinn sem hélst allt kvöldið. Þétt band sem hefur ekki spilað mikið, nánast ekki neitt undanfarin ár en þá heyrðist ekki. Á eftir Texas Jésús kom stelpnabandið Skandall, sem hét Sækuntur Satans áður og passar miklu betur inn í nafngiftir banda á Eyrarrokki. Skandallinn stóð ekki undir nafni því þær voru hreint út sagt frábærar, smá stress í byrjun sem rauk af þeim eftir nokkra hljóma. Þær enduðu sitt gigg á sigurlaginu úr Söngvakeppni Framhaldsskólanna sem þær unnu. Þeir sem voru mættir á Vitann áttu auðvelt með að skilja þann sigur enda þétt og flott band.

Á eftir stelpunum stigu Svörtu kaggarnir á svið og létu gamminn geysa. Þeir voru líka hrikalega flottir og skildu allt eftir á sviðinu. Gríðarlega flott band sem undirritaður hafði hvorki heyrt í né um áður, en vegna hæfileika tónleikahaldaranna þá efaðist maður einhvern veginn aldrei um að þetta gæti klikkað. En svo var þetta alveg klikkað.

Þrjú síðustu böndin sem lokuðu tónlistarhátíðinni voru ekki af verri endanum. SúEllen var fyrst af þeim og hristi enn meira, ef það var hægt, upp í áhorfendum. Þeir tóku flest sín bestu lög og hóuðu að lokum Óla Palla, kynni kvöldsins, upp á svið til að taka lagið.

Jeff Who tók við boltanum, spilagleðin skein úr augum þeirra er þeir tóku hvern smellinn af öðrum og skiluðu að lokum öllum Lalalalalalalaandi yfir til Brain Police sem lokaði frábæru kvöldi með ótrúlegri frammistöðu. Brain Police er í feykna formi og það hefði hreinlega ekki verið hægt að loka þessu á meira bylmingshöggi. Þvílík negla. Þessar þrjár síðustu stóðu svo sannarlega fyrir sínu og var hver annarri betri. Ég er bara að verða uppiskroppa með lýsingarorð því miður.

Þeir sem stóðu að þessari fimmtu, og kannski (vonandi ekki) síðustu, Eyrarrokkshátið eiga heldur betur hrós skilið. Rögnvaldur „gáfaði“ Bragi, Sumarliði Helgason og Helgi Gunnlaugsson á Vitanum eiga svo sannarlega þakkir skildar fyrir að brydda svona kyrfilega upp á listalífið á Akureyri. Akureyrarbær ætti að sjá sóma sinn í því að styrkja svona sjálfsprottið verkefni duglega til að viðhalda góðri flóru lista í bænum.

Það kostar að halda úti svona hátíð sem lífgar heldur betur upp á bæinn einu sinni á ári og skattpeningar okkar Akureyringa eru oft verr nýttir en að skella í góðan stuðning við þá félaga þannig að hátíðin lognist ekki út af.   Þeir peningar skila sér margfalt til baka í umfjöllun, umtali og gestagangi.

Í framhaldi af  þessu þá er ekki úr vegi að láta þeirra getið sem styrktu hátíðina með einum eða öðrum hætti og gerðu hana þar með mögulega: Landsbankinn, Arion Banki, Ölgerðin, Greifinn, KEA, Rafeyri, Akureyri Backpackers og Kjarnafæði.

 
 
 
 
 
 
 
 

Nýjast