Í júní 2025 fengu 18 verkefni inngöngu í Slipptökuna - nýsköpunarhraðal Driftar EA. Þar fengu teymin markvissa leiðsögn, aðgang að sérfræðingum og tækifæri til að þróa hugmyndir sínar áfram. Að loknum kynningum fyrir stjórn Driftar EA á lokadegi Slipptökunnar júní sl. voru sjö þeirra valin áfram í Hlunninn, sem veitir áframhaldandi heildstæða og sérsniðna aðstoð í allt að 12 mánuði.
„Við sjáum gríðarlega mikinn metnað og fjölbreytileika í þeim verkefnum sem sóttu um í ár. Það er ánægjulegt að fylgja þessum teymum áfram í Hlunninum og sjá hugmyndir þeirra þróast,“ segir Sesselja I. Barðdal Reynisdóttir, framkvæmdastjóri Drift EA.
Öflugt samstarf og stuðningur
Í Hlunninum fá verkefnin aðgang að skrifstofuaðstöðu, persónulegan þjálfara og sérfræðiráðgjöf frá Drifturum – leiðandi fyrirtækjum og samstarfsaðilum Driftar EA ásamt forgangi á hagnýtar vinnustofur sem Drift heldur reglulega. Fjögur af þessum fyrirtækjum fá einnig fjárstuðning.
,,Starfsemi Driftar EA hefur orðið til þess að efla og styrkja þá miklu grósku sem þegar er í nýsköpun og hugviti á Eyjafjarðarsvæðinu”, segir Sesselja Barðdal. Á svæðinu séu öflug fyrirtæki og fjölbreyttar atvinnugreinar sem skapa frjósaman jarðveg fyrir sprota og frumkvöðla.
,,Með Hlunninum ætlum við að vera drifkraftur í íslensku nýsköpunarumhverfi og styðja frumkvöðla á öllum stigum ferlisins,“ segir Sesselja.
Verkefnin sem voru tekin inn í Hlunninn.
Verkefnin sem hlutu inngöngu í Hlunninn endurspegla þann kraft og fjölbreytileika sem einkennir nýsköpun á Norðurlandi, að sögn Sesselju.
,,Hér má finna samfélagsleg verkefni sem stuðla að jafnrétti og menningu, stafrænar lausnir sem einfalda daglegt líf og rekstur, ásamt frumkvöðlastarfi á sviði matvælaframleiðslu, heilbrigðistækni og sjálfbærra orkulausna. Þessi fjölbreytni sýnir vel styrkleika nýsköpunarumhverfisins – þar sem hugvit, hugrekki og hugmyndir úr ólíkum áttum fá að vaxa og dafna.”
Verkefnin sem komust í Hlunninn eru:
AKURÓS er nýsköpunarfyrirtæki sem vinnur með íslenskt hráefni til að skapa verðmæti og útflutningsafurðir. Fyrsta verkefnið er Stökkfiskur, próteinríkt fiskisnakk sem sameinar hefðir harðfisks við nútímalega framleiðslutækni. Verkefnið felur í sér þróun, framleiðslu og markaðssetningu bæði innanlands og erlendis með áherslu á gæði, sjálfbærni og hollustu. Frumkvöðlar: Sölvi Steinn Helgason og Sigrún Finna M. Snædal
Sölvi Steinn Helgason og Sigrún Finna M. Snædal
ORKEY framleiðir lífdísil, sjálfbært og umhverfisvænt eldsneyti unnið úr notaðri matarolíu sem má nota í stað díselolíu. Orkey undirbýr nú byggingu á stærri verksmiðju en félagið hefur rekið á Akureyri til þessa og auka þannig framboð á innlendu umhverfisvænu eldsneyti. Frumkvöðull: Skúli Gunnar Árnason
Skúli Gunnar Árnason
PT ASSISTANCE er íslenskt nýsköpunarfyrirtæki stofnað af sjö sjúkraþjálfurum og einum viðskiptafræðingi. Þau hafa þegar þróað stafræna lausn með yfir 2000 æfingamyndböndum og rúmlega 900 stigskiptum æfingaáætlunum sem eru flokkaðar eftir getu, meiðslum og staðsetningu. Markmið er að gera sjúkraþjálfara skilvirkari og skjólstæðinga virkari með þjónustu sem bætir árangur og meðferðarheldni, sparar kostnað í heilbrigðiskerfinu og styður fagfólk í daglegu starfi. Lausnin er aðgengileg allan sólarhringinn í gegnum vef og smáforrit. Frumkvöðlar: Hannes Bjarni Hannesson og Þorleifur Stefánsson
Hannes Bjarni Hannesson og Þorleifur Stefánsson
UNNUR VERKBÓKHALD er stafræn lausn hönnuð fyrir iðnaðarmenn og verktaka sem vilja eyða minni tíma í skrifstofuvinnu og meiri tíma á verkstað. Kerfið sameinar tímaskráningu, efnissölu og verkefnastýringu í einföldu smáforriti og vefviðmóti. Með sjálfvirkum lausnum, eins og GPS tímaskráningu og pörun rafrænna efnisreikninga beint á rétt verkefni, dregur Unnur verulega úr handavinnu og einfaldar alla reikningagerð. Frumkvöðlar: Júlíus Þór Björnsson og Friðrik Snær Waage
Júlíus Þór Björnsson og Friðrik Snær Waage
ÞÍN EIGN er að hanna viðmót fyrir einstaklinga og fyrirtæki þar sem hægt er að skrá allt viðhald á eignum. Inni í forritinu er hægt að sjá hver framkvæmdi verkið, hvenær og hvað var gert við eignina þína. Frumkvöðlar: Einar Ragnar Haraldsson og Guðbjörn Grétar Björnsson
Einar Ragnar Haraldsson og Guðbjörn Grétar Björnsson
MANNKENND er fyrsta og eina bókaútgáfan sem sérhæfir sig í útgáfu hágæða barnabóka um fötlunar fjölbreytileika. Hugmyndin að stofnun Mannkenndar var hluti af réttindabaráttu Ingibjargar Guðlaugar Jónsdóttur fyrir dóttur sína sem er mikill lestrarhestur og fór að spyrja hvort það væru til bækur um krakka með sjaldgæfa sjúkdóma, flogaveiki eða einhverfu eins og hún. Mikill skortur er á barnabókum sem sýnir líf fatlaðra barna í jákvæðu ljósi, styrkleika þeirra og hæfni en einnig áskoranir. Frumkvöðull: Ingibjörg Guðlaug Jónsdóttir
Ingibjörg Guðlaug Jónsdóttir
KEX CREATIVE STUDIO er meira en bara vintage fataverslun. Hér ætla vinkonurnar Ylfa Rún Arnarsdóttir og Sóley Eva Magnúsdóttir að skapa rými þar sem sjálfbærni og skapandi samfélag eiga heimahöfn. Boðið verður upp á fjölbreytt úrval af vönduðum notuðum flíkum og vettvang fyrir skapandi hugmyndir, viðburði og tengslamyndun. Frumkvöðlar: Ylfa Rún Arnarsdóttir og Sóley Eva Magnúsdóttir
Ylfa Rún Arnarsdóttir og Sóley Eva Magnúsdóttir
Stefnt er að því að opna fyrir umsóknir í næstu Slipptöku fljótlega á nýju ári og geta áhugasamir fylgst með á vefsíðu Driftar EA og samfélagsmiðlum.
Frá þessu segir í tilkynningu frá Drift EA