Fjölskylduþjónusta Norðurlands eystra fær styrk

Akureyrarbær hlaut á dögunum styrk frá mennta- og barnamálaráðuneytinu fyrir verkefnið Fjölskylduþjónusta Norðurlands eystra.

Verkefnið miðar að því að efla farsæld barna og fjölskyldna með snemmtækri, samþættri og fjölskyldumiðaðri þjónustu sem byggir á norskri fyrirmynd. Um er að ræða tímabundið stuðningskerfi sem tekur á fjölbreyttum áskorunum í lífi barna og felur m.a. í sér barnasmiðjur, fjölskyldumeðferð og eftirfylgni í allt að 12 mánuði. Styrkurinn er liður í aðgerðum stjórnvalda vegna ofbeldis meðal barna og gegn börnum.

Mikilvægt skref

„Það hefur lengi verið sagt að best sé að byrgja brunninn áður en barnið dettur ofan í hann. Með þessu verkefni, sem velferðarsvið Akureyrarbæjar leiðir í samstarfi við fræðslu- og lýðheilsusvið bæjarins auk tíu annarra sveitarfélaga á Norðurlandi eystra, er stigið mikilvægt skref í þá átt,“ segir Halldóra Kristín Hauksdóttir, forstöðumaður félagsþjónustunnar hjá Akureyrarbæ á vefsíðu bæjarins.

Fjölskylduþjónusta Norðurlands eystra er hugsað sem 24 mánaða tilraunaverkefni á árunum 2026–2027. Að loknu því tímabili verður árangur metinn og gert átak til að tryggja sjálfbæra innleiðingu á úrræðinu innan almennrar starfsemi sveitarfélaga á Norðurlandi eystra, ef niðurstöður verða jákvæðar.

Nýjast