Laugardagurinn 11. október er seinasti sýningardagur á verkum Margrétar Jónsdóttur leirlistakonu, en eins og kunnugt er gerði Margrét einstök leirverk í formi persónuskúlptúra og myndaramma, sem hún vann sérstaklega fyrir Sigurhæðir í ár.
Verk Margrétar eru í frjóu samtali við menningararf staðarins og aðra listsköpun og samfélagsþróun í okkar samtíma. Sýning hennar í Sigurhæðum hefur verið liður í 40 ára starfsafmælis Margrétar sem myndlistamanns.
Í listamannsspjalli sem Hlynur Hallsson leiðir með Margréti kl 13 þennan laugardag skoðum við verk hennar nánar, líka í samhengi við ljósmyndir, söguskoðun, sjálfsmyndir, framsetningu og hlutverk listafólks í samfélaginu.
Eftir það gefst gestum og gangandi tækifæri til kynnast Sigurhæðum betur og rölta um húsið, en þennan dag er staðurinn annars líka opinn frá klukkan 9 um morguninn og til klukkan 17 og er þetta seinasti formlega opni dagur hjá Flóru Menningarhúsi í Sigurhæðum í ár.
Enginn aðgangseyrir og öll innilega velkomin.