Segir vinnuaðstæður lögreglunnar sláandi

Lögreglustöðin á Akureyri.
Lögreglustöðin á Akureyri.

Anna Kolbrún Árnadóttir, þingkona Miðflokksins í NA-kjördæmi, segir löngu tímabært að taka húsnæði lögreglunnar á Akureyri til endurskoðunar. Allsherjar- og menntamálanefnd alþingis kom í heimsókn til Akureyrar á dögunum og heimsótti m.a. lögregluna á Norðurlandi eystra sem hefur aðsetur á Akureyri.

Í umsögn um heimsóknina á vef alþingis segir Anna Kolbrún að þar fari fram mjög mikilvæg vinna við afar erfiðar vinnuaðstæður. „Húsnæðið er löngu sprungið. Ég vissi að þröngt væri um lögregluna þarna enda húsnæðið yfir 40 ára gamalt en ég vissi ekki að það væri svona slæmt. Þetta er eiginlega dálítið sláandi. Til að mynda er einn sérsveitarmaður staðsettur á Akureyri og vinnurými hans er ofan í kjallara lögreglustöðvarinnar. Vissulega fer liðsauki frá Reykjavík norður þegar á þarf að halda en þær aðstæður koma upp að menn þurfa að bregðast mjög fljótt við og þá er varla tími til að bíða eftir síðdegisflugvélinni,“ skrifaði Anna Kolbrún.

Húsið hamlandi fyrir aukna starfsemi

Í samtali við Vikudag segist Anna Kolbrún ætla að tala fyrir því að húsnæðismál lögreglunnar verði tekið fyrir. Hún bendir á að lögreglan á Norðurlandi eystra hafi tekið að sér auknar skyldur undanfarið, m.a. fyrir þolendur kynferðisofbeldis.

„Þá erum við einnig komin með lögreglunám í Háskólann á Akureyri en svo er lögregluhúsnæðið sjálft hamlandi fyrir aukna starfsemi. Þetta helst allt í hendur,“ segir Anna Kolbrún. Hún bendir einnig á að það vanti átta lögreglumenn í viðbót til að sinna umdæminu á Norðurlandi eystra, en það sé einfaldlega ekki pláss fyrir fleira fólk. „Því er afar brýnt að taka aðstöðu lögreglunnar í gegn.“  


Nýjast