Segir íbúakosningu tilgangslausa og peningaaustur hjá Akureyrarbæ

Fyrirhugaðar tillögur að breytingum á Oddeyrinni. Hlynur Jóhannsson er bæjarfulltrúi Miðflokksins. M…
Fyrirhugaðar tillögur að breytingum á Oddeyrinni. Hlynur Jóhannsson er bæjarfulltrúi Miðflokksins. Myndin er samsett.

Meirihluti bæjarráðs Akureyrar leggur til við bæjarstjórn að farið verði í ráðgefandi íbúakosningu um áður auglýsta tillögu að breytingu á aðalskipulagi Oddeyrar. Íbúakosningin fari fram í gegnum þjónustugátt bæjarins dagana 27. til 31. maí nk. Jafnframt samþykkir bæjarráð áætlun vegna kynningarkostnaðar að fjárhæð 1,8 milljónir króna sem færist af aðkeyptri þjónustu skipulagssviðs.

Hlynur Jóhannsson bæjarfulltrúi Miðflokksins, greiðir atkvæði á móti afgreiðslunni og lagði fram eftirfarandi bókun:

„Þar sem nú eru gjörbreyttar forsendur miðað við þegar sú ákvörðun var tekin að vera með íbúakosningu vegna Oddeyrarreitsins þá er engin ástæða til að vera með þessa kosningu. Verktakinn sem á lóð þarna og óskaði eftir því að skipulaginu yrði breytt hefur komið þeim skilaboðum til bæjarfulltrúa að þær takmarkanir sem eru settar í þessa kosningu séu til þess fallnar að hann muni ekki byggja þarna. Bærinn á ekki lóð þarna og því enginn að fara að byggja og tilgangslaust að eyða tíma bæjarstarfsmanna og peningum úr bæjarsjóði til þess að kjósa um ekki neitt á sama tíma og bæjarsjóður skilar methalla.

Sú bæjarstjórn sem nú situr á aðeins eitt ár eftir og ætti því að láta þeirri bæjarstjórn sem tekur við eftir að ákveða hvað þarna verður gert. Ef þetta er eingöngu gert til þess að sýna fram á að ekki ríki verktakaræði hér þá er þetta skrýtin leið og nær væri að vanda sig í skipulaginu. Þá er það mikið áhyggjuefni að bæjarfulltrúar skuli vera til í að eyða peningum bæjarbúa í ekki neitt á þessum erfiðu tímum í rekstrinum," segir Hlynur.


Athugasemdir

Nýjast