Sáum tækifæri til að skapa okkur vinnu sjálfir

„Við stofnuðum fyrirtækið í janúar í fyrra og höfum verið í þessu síðan.  Það hefur gengið vel og við höfum nóg að gera," segir Ómar Már Þóroddsson sem ásamt Inga Rúnari Sigurjónssyni rekur Hópferðabíla Akureyrar.  Það hóf starfsemi í janúar 2009 og er rúmlega árs gamalt.  

„Þetta byrjaði þannig að okkur vantaði vinnu, við vorum báðir í sjálfstæðri starfsemi, en atvinnan hafði minnkað og við sáum þarna tækifæri á að skapa okkur vinnu sjálfir.  Við vildum prófa þetta," segir Ómar um upphafið. Hópferðabílar Akureyrar hafa sérleyfi á leiðinni Akureyri-Dalvík-Ólafsfjörður og eru þrjár ferðir á dag, alla virka daga á þeirri leið. „Við höfum svo mikið verið í því að aka með hópa, m.a. íþróttahópa af ýmsu tagi, þannig höfum við t.d. mikið farið með íshokkýlið bæjarins suður svo eitthvað sé nefnt," segir Ómar.

Þeir Ómar og Ingi Rúnar starfa tveir við fyrirtækið, en þegar mikið er að gera fá þeir aðstoð við aksturinn. „Við getum hóað í aðstoðarmenn á álagstímum og það er ágætt." Bílarnir eru fjórir talsins, sá stærsti tekur 56 manns í sæti, einn er 50 manna, einn 30 manna og sá minnsti er fyrir 17. Tvo þeirra fengu þeir nú í janúar í kjölfar þess að fyrirtækið hreppti sérleyfið á leiðinni Akureyri-Dalvík-Ólafsfjörður.

Höfum nóg að gera og það var markmiðið

„Við erum bara brattir og höfum nóg að gera fyrir okkur, en það var markmiðið.  Við höfum samt ekki auglýst mikið og margir vita ekki af okkur," segir Ómar.  Hann segir útlitið framundan sé ágætt og sumarið lítið vel út, en fyrirtækið leggi einkum áherslu á akstur með Íslendinga, hópferðir af ýmsu tagi.  „Við gerum þetta á okkar forsendum og reynum hvað við getum að bjóða hagstætt verð, það getum við m.a. vegna þess að engin yfirbygging er hjá fyrirtækinu, við sjáum um allt sem viðkemur rekstrinum sjálfir," segir Ómar.  Hann segir starfið skemmtilegt og gefandi, en sjálfur var hann í rútubílaakstri með föður sínum á árum áður og þekkir því vel til.

Nýjast